Innlent

Ráðuneytið fór ekki að lögum

Dómsmálaráðuneytið fór ekki að lögum þegar það synjaði fanga á Litla-Hrauni um dagsleyfi. Fanginn óskaði í júní síðstliðnum eftir dagsleyfi síðar í mánuðinum. Fangelsisyfirvöld synjuðu beiðni hans, meðal annars af þeirri ástæðu að fanginn ætti óafgreitt mál í kerfinu. Fanginn kærði úrskurðinn til dómsmálaráðuneytisins sem staðfesti synjunina. Í framhaldinu kvartaði fanginn til umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður bendir á að verklagsregla fangelsismálastofnunar fæli í sér fortakslausa reglu sem leiddi til þess að fangi sem ætti ólokið máli fyrir dómstólum, þar sem ljóst þætti að hann myndi hljóta óskilorðsbundna fangelsisrefsingu til viðbótar áður dæmdri refsingu, væri útilokaður frá því að hljóta dagsleyfi. Umboðsmaður taldi þessa reglu ganga lengra en samrýmst gæti lagaákvæðum um leyfi til dvalar utan fangelsis, í að afnema það einstaklingsbundna mat sem stjórnvöldum væri falið. Þar sem þessi regla hafi í raun ráðið ákvörðun ráðuneytisins hefði ekki farið fram mat á því hvort að fanginn fullnægði skilyrðum laga fyrir veitingu dagsleyfis. Komst umboðsmaður því að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðuneytið hefði ekki afgreitt málið í samræmi við lög. Þá hafi ráðuneytið ekki gætt andmælaréttar fangans. Umboðsmaður Alþingis beindi því þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það gætti í framtíðinni að þessum atriðum við meðferð sambærilegra mála.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×