Innlent

500 handsprengjum eytt

Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar eyddu 500 handsprengjum fyrir Varnarliðið á þriðjudag. Handsprengjurnar höfðu skemmst í geymslum Varnarliðsins og var því tekið til þess ráðs að eyða þeim með tveimur sprengingum. Alls var rúmlega 150 kílóum af sprengiefni eytt. Gylfi Geirsson, yfirmaður sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar segir þetta bara hafa verið rútínu verkefni. "Þetta eru hlutir sem eru fallnir á tíma og þá er þetta aðferðin." Hann segir að það sé kannski ekki nógu oft að Varnarliðið leiti til Landhelgisgæslunnar, en komi fyrir öðru hvoru. Fyrir rúmlega fjórum árum síðan gerðu Landhelgisgæslan og Varnarliðið með sér samning um að sprengjudeild gæslunnar sæi alfarið um sprengjueyðingu fyrir Varnarliðið. Gylfi segir að það sé ákaflega sjaldgæft að bandaríski herinn leiti út fyrir eigin raðir til að sjá um sprengjueyðingu fyrir sig. "Eftir því sem ég best veit er þetta nánast einsdæmi að þeir feli öðrum þjóðum þetta hlutverk," segir Gylfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×