Innlent

Hefði getað orðið stórbruni

Minnstu mátti muna að stórbruni yrði í 150 ára gömlu húsi á horni Lækjargötu og Austurstrætis þegar eldur kviknaði þar út frá eldunartækjum í Kebab-húsinu á neðri hæðinni um klukkan hálfníu í gærkvöldi. Allt tiltækt slökkvilið af höfuðborgarsvæðinu var sent á vettvang og segja kunnugir að það hafi verið fyrir snarræði slökkviliðsmanna að ekki fór verr þar sem þeir áttuðu sig strax á gangi mála. Eldurinn hafði teygt sig eftir loftræstistokki og alveg upp í þakskegg. Slökkviliðsmenn náðu að rjúfa stokkinn og slökkva eldinn og utanfrá var slökkt í þakskegginu. Þá hafði reykur borist inn á Kaffi Óperu á efri hæðinni og var um tíma óttast að þar logaði líka, en svo reyndist ekki vera. Húsið er úr timbri og einangrað með ýmsum efnum og sumum eldfimum. Engan sem í húsinu var sakaði og reykræsti slökkviliðið það að slökkvistarfi loknu. Vakt var höfð í húsinu fram eftir nóttu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×