Innlent

Mótmæla hækkun skráningargjalda

Nemendafélög ríkisháskólanna hafa sent frá sér ályktanir og verið með heilsíðuauglýsingar í dagblöðum til þess að mótmæla því að skráningargjöld í skólunum verði hækkuð um 13.500 krónur. Menntamálaráðherra hefur lagt fram frumvarp þessa efnis og verður það tekið til atkvæðagreiðslu klukkan hálftvö í dag. Í yfirlýsingum nemenda segir að ef frumvarpið verði samþykkt þýði það fjörutíu prósenta hækkun á skráningargjöldum sem hafi þá hækkað um áttatíu prósent á fjórum árum. Í krónum talið hækka gjöldin um 13.500 krónur, eða úr 32.500 krónum upp í 45.000 krónur. Nemendur við ríkisháskólana standa nú fyrir undirskrifasöfnun til þess að mótmæla þessari hækkun. Í heilsíðuauglýsingu sem birtist í dagblöðum í dag er Dagný Jónsdóttir, varaformaður menntamálanefndar Alþingis, sérstaklega ávörpuð. Birt er mynd af þingkonunni og sagt að það velti á henni hvort hækkunin verði samþykkt. Nemendafélögin spyrja hvort henni renni ekki blóðið til skyldunnar sem fyrrverandi framkvæmdastjóra Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Dagný er hvött til þess að greiða atkvæði gegn hækkuninni og fá aðra þingmenn til þess að gera slíkt hið sama. Ekki náðist í Dagnýju fyrir fréttir en samkvæmt heimildum fréttastofu ætlar hún að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×