Innlent

Verðskrár í endurskoðun

Fulltrúar Og Vodafone og Símans segjast hafa boðið viðskiptavinum sínum upp á ýmsa afslætti á umframgagnamagni erlendis frá. Í gær kom fram gagnrýni Hrafnkels V. Gíslasonar, forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar, á verðlagningu á erlendu niðurhali, þrátt fyrir margfalda gagnaflutningsgetu nýja sæstrengsins Farice og lélega nýtingu á flutningsgetu hans. "Við veittum 75 prósent afslátt í desember, sem var afmælisafsláttur ADSL-þjónustunnar sem hefur verið á markaði í fimm ár," segir Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans. "Síminn er auk þess að endurskoða verðskrá sína fyrir internetþjónustuna og verður hún kynnt almenningi á næstunni." Pétur Pétursson, upplýsingafulltrúi Og Vodafone, segir fyrirtækið hafa farið af stað með lækkað verð og betri internetþjónustu fyrir um þremur mánuðum. "Við erum enn að leita leiða til að auka frítt niðurhal en það er misskilningur að halda erlent niðurhal sé frítt, eins og sumir vilja halda fram. Að stækka útlandagátt okkar um Farice-strenginn þýðir 70 prósent kostnaðarauka fyrir okkur, eða nokkur hundruð milljónir króna. Ótakmarkað niðurhal þýðir hærra mánaðargjald hjá þeim sem það bjóða, og mundi þýða hækkun mánaðargjalds hjá þeim sem tækju upp á því líka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×