Innlent

Enn frá vinnu vegna reykeitrunar

Tveir lögreglumenn eru enn frá vinnu vegna reykeitrunar sem þeir fengu á vettvangi brunans í Hringrás við Sundahöfn 22. nóvember. Þeir voru báðir á vakt þegar eldurinn kviknaði, héldu þegar á vettvang og voru þar lengi við stjórn aðgerða. Báðir lögreglumennirnir notuðu reykgrímur en annar þeirra, sem er varðstjóri, þurfti margoft að taka hana af sér til að tala í talstöð og farsíma vegna aðgerðanna og veiktist hann sýnu verr en hinn. Báðir fóru á slysadeild um nóttina en einkennin virðast ekki hafa komið í ljós af fullum þunga fyrr en daginn eftir. Þá voru þeir aftur sendir til læknis og hafa verið undir stöðugu eftirliti síðan. Að sögn Ingimundar Einarssonar aðstoðarlögreglustjóra er vonast til að þeir geti komið aftur til vinnu 8. desember en læknar segja að það geti tekið lengri tíma að þeir nái sér að fullu. Reyndar er engu hægt að slá föstu um að svo verði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×