Innlent

Segjast ekki mismuna neinum

"Okkar verð er jafnt til allra og svo keppa menn í þjónustu," segir Jón Birgir Jónsson, stjórnarformaður Farice sæstrengsins og telur umræðu um gjaldtöku fjarskiptafyrirtækja og internetveita fyrir niðurhal erlendis frá ekki koma fyrirtækinu við. "Við pössum okkur á að blandast ekki í þessi mál. Ríkið á 40 prósent í þessu fyrirtæki og við höfum mjög opna stefnu í þessum málum þannig að við mismunum engum," segir hann. Jón Birgir segir að aðgangur að sæstrengnum sé seldur á föstu verði í heildsölu og að sem standi hafi Farice bara þrjá viðskiptavini, Símann, Og Vodafone og svo símafyrirtæki Færeyinga. "Hægt er að kaupa minnst svokallaða DS3 einingu, en það eru 45 megabit. Svo er hægt að fara í það sem kallast STM1 sem eru 155 megabit og svo í fjórföldun á því. Við erum í sjálfu sér ekki í neinni samkeppni, nema við Cantat-3 strenginn. Verðskráin er opin og hver sem er getur komið og keypt af okkur fyrir alveg sama verð og eigendur fá," áréttar Jón Birgir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×