Innlent

Atkvæðagreiðslu lýkur í dag

Atkvæðagreiðslu um kjarasamning kennara lýkur í dag klukkan sex og fara öll atkvæði í póst til Kennarasambandsins í dag. Valgeir Gestsson, starfsmaður kjörstjórnar, segist eiga von á fyrstu stóru atkvæðabunkunum í dag en nokkur atkvæði höfðu borist í gær. Kennarasambandið gefur trúnaðarmönnum og starfsmönnum póstsins frest fram að helgi til að skila inn atkvæðunum. Atkvæðagreiðslu var sums staðar nánast lokið þegar Fréttablaðið hafði samband við trúnaðarmenn í nokkrum skólum í gær. Þannig voru nánast allir búnir að greiða atkvæði í Lindaskóla, stærsta grunnskólanum í Kópavogi, og atkvæðagreiðslan var komin vel á veg í Rimaskóla í Grafarvogi. Starfsmenn kjörstjórnar loka að sér um helgina til að telja atkvæðin en stefnt er að því að úrslit liggi fyrir fyrir hádegi á mánudag. Aðeins þarf einfaldan meirihluta greiddra atkvæða til að samþykkja samninginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×