Innlent

Lögregla leitar enn ökumannsins

Lögreglan í Keflavík leitar enn ökumanns sem ók á unga konu á mótum Strandgötu og Vesturgötu í Sandgerði um klukkan hálfsex í gærkvöldi og ók af vettvangi þar sem konan lá alvarlega slösuð í götunni. Vegfarandi sem kom að kallaði þegar á lögreglu og sjúkrabíl og var konan flutt rænulítil á slysadeild Landspítalans. Þar kom í ljós að hún var meðal annars lærbrotin, skrámuð og marin og hafði fengið þungt höfuðhögg. Hún mundi vart eftir atvikinu og gat enga lýsingu gefiið á bíl né öðru í umhverfinu. Að sögn lögreglunnar í Keflavík, sem er að rannsaka málið, eru yfirgnæfandi líkur á að ökumaðurinn hafi orðið var við það þegar hann ók á konuna því höggið hefur verið talsvert. Konan lauk vinnu klukkan 17.20 í gær og var á leið heim til sín en fannst tíu mínútum síðar. Hún er enn á sjúkrahúsinu og á að gangast undir aðra aðgerð í dag. Lögreglan ætlar að ræða nánar við hana í dag ef ske kynni að hún muni eitthvað nánar. Lögreglan biður þá sem eitthvað vita um atvikið að láta sig þegar vita í síma 420 2400.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×