Innlent

Lög á kennaradeilu samþykkt

Frumvarp til laga um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum, með áorðnum breytingum var samþykkt á Alþingi rétt eftir hádegi í dag. Samkvæmt lögunum verður gerðardómur skipaður til að leysa kjaradeilu kennara, náist ekki samkomulag við Launanefnd sveitarfélaga fyrir 20. nóvember. Gerðardómur hefur frest til loka febrúar á næsta ári til að ákveða kaup og kjör félagsmanna Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands. Alls greiddu 28 þingmenn atkvæði með lagasetningunni, 21 þingmaður var á móti og 14 voru fjarverandi. Stjórnarandstaðan greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Í nefndaráliti minnihluta allsherjarnefndar segir að lagasetningin skjóti vandanum einungis á frest og báðir samningsaðilar hafi lýst andstöðu sinni við lagasetningu. Óánægja innan kennarastéttarinnar muni magnast ef frumvarpið nái fram að ganga og geti leitt til flótta úr stéttinni. Þá muni kennarar mæta til starfa í algerri óvissu um framtíðarkjör sín, sem setji skólastarf í uppnám.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×