Innlent

Málið sent saksóknara

Lögreglurannsókn á líkamsárás í Öxnadal aðfaranótt fimmta ágúst er lokið og verður málið sent ríkissaksóknara eftir helgi. Sá grunaði er talinn hafa barið annan mann með hafnaboltakylfu í höfuðið þannig að hann slasaðist alvarlega. Árásarmaðurinn er á þrítugsaldri og sat í nokkurra daga gæsluvarðhaldi eftir að misvísandi upplýsingar vitna að atburðunum leiddu til rannsóknar lögreglunnar á Akureyri. Sá sem varð fyrir árásinni slasaðist alvarlega og var fluttur á gjörgæsludeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri með höfuðkúpu-, nef- og kinnbeinsbrot og blæðingar inn á heila. Sá grunaði og sá slasaði voru í bíl í Öxnadal ásamt tveimur öðrum. Samferðarmenn þess slasaða sögðu í fyrstu að hann hefði fallið á veginn þegar hann fór út úr bílnum eftir rifrildi. Við nánari athugun kom í ljós að sjö vitni urðu að atburðinum, sem ekki er talinn hafa verið óhapp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×