Innlent

Vélhjólamönnum vísað úr landi

Félögum í vélhjólaklúbbnum Hog Riders, sem landamæravarslan í Leifsstöð stöðvaði við komuna til landsins í gær, hefur verið vísað úr landi. Stærsti hluti hópsins bíður enn í flugstöðinni eftir því að fá sæti utan en nokkrir eru þegar farnir. Ekki kom til neinna átaka þótt vélhjólamennirnir hafi kvartað sáran, sagst vera komnir í friðsamlegum tilgangi og ekki tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Mennirnir voru stöðvaðir eftir ábendingu frá Ríkislögreglustjóranum um að þeir gætu ógnað almannafriði og væru hingað komnir til að taka inn íslenska félaga. Á vefsíðu Hog Riders í Skandinavíu segir að vélhjólaklúbburinn Hrollur á Íslandi hafi verið samþykktur sem eins konar systrafélag. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu voru sumir vélhjólamannanna sem vildu koma til landsins með alvarleg hegningarlagabrot á sakaskrá sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×