Innlent

Fullur á stolnum bíl

Menn sem unnu við kvikmyndatöku á Klapparstíg í gærmorgun áttu fótum sínum fjör að launa þegar drukkinn maður stal bíl þeirra og ók næstum á þá þegar þeir reyndu að stöðva hann. Skömmu síðar hóf lögreglan eftirför og náði að stöðva bílþjófinn, sem skemmdi bílinn sem hann ók auk tveggja lögreglubíla. Bíll kvikmyndatökumannanna var ólæstur og með lyklunum í og voru þeir við störf mjög nálægt bílnum. Þeir hringdu strax á lögregluna, sem sá til bílþjófsins á Barónsstíg og hóf eftirför. Bílþjófurinn virti ekki stöðvunarmerki lögreglu og ók á lögreglubílinn. Þá ók hann á móti einstefnu, á móti rauðu ljósi og utan í annan lögreglubíl sem einnig tók þátt í eftirförinni. Loks náðist að króa manninn af og handtaka á Miklubraut við Eskihlíð. Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni í Reykjavík stafaði stórhætta af akstri mannsins en svo vildi til að morgunumferðin var ekki hafin. Maðurinn skemmdi bílinn sem hann stal og annan lögreglubílinn talsvert. Hinn lögreglubíllinn skemmdist minna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×