Innlent

Áttu pantaðan tíma hjá sýslumanni

Bráðabirgðaniðurstöður krufningar styðja það sem áður hefur komið fram um að Sæunni Pálsdóttur hafi verið ráðinn bani með því að þrengt hafi verið að öndunarvegi hennar að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns í Kópavogi. Eiginmaður Sæunnar, Magnús Einarsson, hefur játað að hafa banað henni á heimili þeirra í Hamraborg aðfaranótt mánudags. Lögregla hefur ekki viljað segja til um hvaða hugsanlegu ástæður hafi verið fyrir verknaðinum. Heimildir segja að Sæunn og Magnús hafi átt pantaðan tíma hjá sýslumanni vegna skilnaðar sem hafi legið fyrir í einhvern tíma. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins banaði Magnús eiginkonu sinni, og móður tveggja barna, með bandi sem hann herti um háls hennar. Magnús var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. desember næstkomandi en hann var handtekinn á vettvangi þegar lögregla kom á staðinn. Hann er nú í einangrun. Í Fréttatilkynningu frá Lögreglunni í Kópavogi í fyrradag sagði að áverkar væru á líkinu sem bentu til þess að átök hefðu átt sér stað sem hefðu leitt til dauða hennar. Friðrik Smári segir þó nokkur vitni hafa verið yfirheyrð vegna málsins og á hann von á að einhverjir verði yfirheyrðir til viðbótar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×