Innlent

Miðlunartillaga lausn verkfallsins

Miðlunartillaga frá ríkissáttasemjara er vænlegasta leiðin til að ljúka verkfalli kennara, segir Gunnar I. Birgisson, formaður menntamálanefndar Alþingis og formaður bæjarráðs Kópavogs. Gunnar telur líklegast að miðlunartillaga verði grunduð á óformlegri tillögu ríkissáttasemjara í síðustu viku. Skoða verði hverju rétt sé að breyta í tillögunni til að mæta launakröfum kennara. Svigrúm verði að vera til að greiða kennurum laun fyrir yfirvinnu. "Ég veit ekki hvernig miðlunartillagan yrði. Það er sáttasemjara að gera hana og ég vil ekki leggja honum orð í munn varðandi hana. En hún yrði að vera á þessum nótum svo ekki færi í gang víxlverkun kaups og verðlags." Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, formaður launanefndar sveitarfélaganna, segir deilendur eiga að reyna til ýtrustu þrautar að ná saman áður en miðlunartillaga verði lögð fram. Þeir þurfi að ræða tilfærslur innan 26 prósenta kostnaðaráætlunnar í tillögudrögum ríkissáttasemjara. Það reyni á það í dag: "Það er samt mat sáttasemjara ríkisins hvenær hann telur að ekki sé hægt að ganga lengra og miðlunartillögu sé þörf." Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagðist ganga með opnum huga til fundarins í Karphúsinnu í dag. Hann ræði miðlunartillögu þegar hún liggi fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×