Innlent

Aftur í Karphúsið án lausnar

"Menn koma fullkomlega óbundnir til fundarins," segir Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari sem boðað hefur samninganefndir kennara og sveitarfélaganna í Karphúsið eftir fund með forsætisráðherra. Ekki stóð til að funda fyrr en 4. nóvember nema annar hvor deilenda hefði einhvað fram að bjóða. Hvorugur þeirra segir svo vera. Þeir mæti að beiðni ríkissáttasemjara sem hyggst hvorki leggja miðlunartillögu á borð deilenda né drög að tillögu eins og á fimmtudag. Hann segir forsætisráðherra ekki hafa boðað að lög verði sett á verkfallið heldur snúist fundurinn um stöðuna í kjaraviðræðunum. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir ekki ljóst hvort einhvað nýtt sé í stöðunni eða hvort fundurinn með forsætisráðherra hafi verið settur til að friða þjóðina: "Ég varaði við því eftir fundinn í stjórnarráðinu í gærmorgun að ekki væri gott ef menn sætu inni í Karphúsi án þess að eitthvað væri á borðinu sem gæti leitt eitthvað jákvætt af sér." Birgir Björn Sigurjónsson, formaður launanefndar sveitarfélaga í viðræðum við kennara, segir nefndina ganga með opnum huga til fundarins. Sveitarfélögin geti þó ekki teygt sig lengra en ríkissáttasemjari mælti með í drögum sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×