Innlent

Agaleysi og eltingaleikur

Börn eru í reiðuleysi og sýna agaleysi í verkfalli kennara, segir Hjörleifur Helgason, vaktstjóri í Egilsshöll. Hann segir aðsóknina að íþróttamiðstöðinni hafi aukist mikið. Börn frá átta ára aldri séu mætt upp úr níu á morgnana. Þau síðustu fari heim um tíu á kvöldin. "Börnin eru villt og hafa ekkert við að vera í verkfalli kennara. Þau nota húsnæðið sem leiksvæði og eru þá ekki að koma á æfingar eða á skauta. Þau eru í eltingaleik og feluleik. Erfitt er að eiga við þau," segir Hjörleifur. "Agaleysið lýsir sér þannig að börnin brúka munn, hlutir hafa verið skemmdir hérna í húsinu, þau taka ekki tilsögn og eru gróf í orðum og gerðum," segir Hjörleifur. Hjörleifur telur að það stafi af lítilli festu í verkfallinu. Hann segir einn starfsmanna hafa þurft að hringja á lögregluna þegar þrír drengir létu öllum illum látum í höllinni. Krakkarnir séu velkomnir á skauta og að nýta sér Egilshöllina meðan það sé gert innan þeirra reglna sem þar gilda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×