Innlent

Enn fundað

Finnbogi Sigurðsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir kennara orðna langeyga eftir viðbrögðum samninganefndar sveitarfélaga við kröfum þeirra. Samningafundur í kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaga hófst klukkan níu í morgun og er enn fundað.  Grunnskólakennarar gera kröfu um að kennsluskylda verði stytt og að launaflokkar úr svokölluðum potti grunnlauna verði færðir. Finnbogi Sigurðsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir að kennarar hafi margítrekað að þessar kröfur séu ófrávíkjanlegar og ekki verði hvikað frá þeim. Hann segir samninganefnd sveitarfélaganna hafi lítil sem engin viðbrögð sýnt við þeim þætti kjaraviðræðnanna og kennarar séu því orðnir langeygir eftir niðurstöðu. Nýr fundur í kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaganna hófst klukkan níu hjá ríkissáttasemjara en lítið miðaði í samkomulagsátt á fjögurra klukkustunda löngum fundi í gær. Vinnudeilusjóður Kennarasambands Íslands hefur greitt út verkfallsbætur fyrir tímabilið 20. september til og með 3. október, eða alls fjórtán daga, en fullar bætur fyrir þennan tíma eru fjörutíu og tvö þúsund krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×