Innlent

Lítið miðar í kennaradeilunni

Að sögn sáttasemjara miðar lítið í samningsátt í kennaradeilunni. Deilendur áttu tíu klukkustunda langan fund í dag,og ákveðið var að boða til fundar á morgun, fimmta daginn í röð.  Á fundi deilenda í dag lagði samninganefnd sveitarfélaganna fram sínar hugmyndir að uppbyggingu á launakerfi. Menn ræddu aðferðarfræði, en ekki krónutölur eða kennsluskylduna, sem segja má að helsti styrinn standi um. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, sér ekki fyrir sér að samninganefnd kennarar slái eitthvað af kröfum sínum. Í stefnuræðu sinni í gærkvöld ítrekaði forsætisráðherra að ríkisvaldið væri ekki hluti af deilunni; yfirstjórn og rekstur grunnskólanna væri alfarið í höndum sveitarfélaga. Formaður Kennarasambandsins er sammála forsætisráðherra að því leyti að ríkisvaldið eigi ekki að koma inn í deiluna. „Hins vegar finnst mér meiriháttar hroki fólginn í því þegar hann segir að sveitarfélögin hafi fengið yfirdrifið nóg fjármagn með grunnskólunum. Það er þar sem vandinn liggur og það er þar sem menn hafa talað um að ríkisstjórnin eigi að koma að málinu,“ segir Eiríkur og bætir við að ábyrgð forsætisráðherra liggi í því að tekjum sé skipt sæmilega réttlátt á milli ríkis og sveitarfélaga. Það sé aftur á móti ekki gert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×