Innlent

Óánægja kennara látin óáreitt

Teikn voru á lofti um óánægju kennara allt frá fyrsta starfsári síðasta kjarasamnings. Taka hefði átt á ágreiningsmálum á fundum samstarfsnefnda kennara og sveitarfélaganna á samningstímanum og reyna að afstýra verkfalli kennara, segir Guðrún Ebba Ólafsdóttir, borgarfulltrúi og fyrrum formaður Félags grunnskólakennara: "Kennarar töldu að til þeirra væru sífellt gerðar auknar kröfur og álagið væri mikið. Þeir voru ósáttir við Reykjavíkurborg sem vinnuveitanda og kom það fram í vinnustaðagreiningu Gallups fyrir tveimur árum." Guðrún Ebba segir að ákveðið hafi verið að koma til móts við kennara með aukafjárveitingu árið 2001. Skólastjórnendur hafi ekki nýtt hana að fullu til kaupa á yfirvinnu af kennurum. Fræðslumiðstöð hafi notað afganginn til að ráða fleira starfsfólk á skrifstofur þess. "Mikið var sett á herðar skólastjóra með síðasta kjarasamningi," segir Guðrún Ebba: "Þó ég sé sammála hugmyndafræðinni sem lá að baki honum voru hugsanlega of stór skref stigin."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×