Innlent

Hamlar gegn bankaránum

Á útibússtjóraráðstefnu Landsbankans um helgina var kynnt nýstárleg seðlavél fyrir bankaútibú sem eykur uppgjörs- og afgreiðsluhraða og sér til þess að reiðufé verði ekki aðgengilegt. "Þessi vél er mikið framfaraskref í öryggismálum útibúanna," segir Anna Bjarney Sigurðardóttir upplýsingarfulltrúi. "Seðlavélin, sem er frá DelaRue, er leiðandi fyrirtæki á þessu sviði í heiminum og minnkar alla meðhöndlun gjaldkera með reiðufé sem þýðir aukið öruggi í útibúinu. Vélin afgreiðir bankastarfsmanninn jafnóðum með þá fjármuni sem hann þarf og tekur við og telur jafnóðum alla þá peninga sem lagðir eru inn. Peningarnir eru síðan geymdir í öruggum og læstum hólfum í vélinni sem engin leið er að nálgast, ekki einu sinni fyrir starfsmann bankans," segir Anna, Hún telur ekki hættu á að vélin sé hættuleg gjaldkerunum vegna gremju bankaræningja sem hafa lítið upp úr krafsinu. "Það er horft til þess að menn viti að það er ekkert upp úr bankaránum að hafa," segir Anna. Nú þegar hefur vélin verið tekin í notkun í einu útibúi Landsbankans en fleiri vélar hafa verið pantaðar og munu verða í útibúum víða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×