Innlent

Beitir sér ekki fyrir kennara

Reykjavíkurborg rétt eins og önnur sveitarfélög á við fjárhagsvanda að stríða, segir Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. "Það er ljóst að fjárhagsstaða allra sveitarfélaga er þröng," segir Árni. Vandinn sé byggður á vaxandi verkefnum sveitarfélaganna. "Fjárhagsstaða sveitarfélaganna er þó misþröng og það má vel halda því fram að hún sé kannski rýmri í Reykjavík heldur en í mörgum öðrum sveitarfélögum," segir Árni. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir öllum hafa verið ljóst að skuldir borgarinnar og borgarsjóðs hafi aukist síðustu ár. Borgin geti leyst vanda sinn með sölu eigna fyrir hátt í tvo milljarða. Þá nýti borgin ekki skattprósentu sveitarfélaganna til fulls: "Borgin á ónotaðan tekjustofn sem nemur 750 milljónum króna." Árni segir að þrátt fyrir fjárhagsvanda borgarinnar og annarra sveitarfélaga sé hann ekki forsenda þess að sveitarfélögin vilji ekki hækka laun kennara umfram launahækkanir annarra. "Jafnvel þó að sveitarfélögin hefðu miklar umframtekjur myndu þau ekki allt í einu gera samninga um launahækkanir við eitt stéttarfélag sem væru langt umfram það sem gert hefur verið við aðra," segir Árni. Undir það tekur Vilhjálmur. Árni segir ekki koma til greina að Reykjavíkurborg leysi verkfall kennara með því að semja sér við sína kennara: "Við höfum framselt okkar vald til launanefndar sveitarfélaganna sem kosin er á landþingi Sambands sveitarfélaganna. Aðeins landsþingið getur breytt því og það verður ekki gert."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×