Innlent

Forsætisráðherrabókin í prentun

Útlit er fyrir að bókin Forsætisráðherrar Íslands - ráðherrar Íslands og forsætisráðherrar í 100 ár, sem gefin verður út af Stjórnarráðinu í tilefni afmæli heimastjórnarinnar, verði komin úr prentun í tæka tíð fyrir boðaðan útgáfudag, þann 15. september næstkomandi. Þann dag lætur Davíð Oddsson forsætisráðherra af embætti sínu og færir sig yfir í utanríkisráðuneytið. "Bókin er að fara í prentun," segir Ólafur Teitur Guðnason, blaðamaður og ritstjóri bókarinnar. Að hans sögn mun bókin koma út degi fyrr en áætlað var, en til stendur að afhenda fráfarandi forsætisráðherra fyrsta eintakið við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu þann 14. september. Ólafur segir útlit fyrir að verkið verði innan kostnaðarramma, en áætlaður kostnaður var 8 milljónir. Hann kveðst ánægður með útkomuna. "Kápan var einmitt að koma úr hönnun," segir hann. "Hún er mjög glæsileg." Að sögn Illuga Gunnarssonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra, er ekki áætlað að um frekari skipulagða dagskrárliði verði að ræða við þau tímamót er Davíð lætur af embætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×