Menning

Handfrjálsi símabúnaðurinn bestur

Siggi Hall, matreiðslumeistari og veitingamaður á Óðinsvéum, segist ekki vera mikill áhugamaður um bíla. Hann segist eiga góða Toyota-bifreið sem hann noti til að komast á milli staða. Þegar blaðamaður spyr Sigga um það besta í bílnum hans nefnir hann stýrið svona í gríni en hugsar sig svo vel um. "Ætli það besta í bílnum mínum sé ekki bara handfrjálsi símabúnaðurinn í honum því mér finnst mjög gaman að nota hann. Vinnu minnar vegna þarf ég mikið að vera í símanum og ég tala nú ekki um þegar svona blaðakonur eins og þú hringja til að spyrja svona skrítinna spurninga. Því er handfrjálsi búnaðurinn bráðnauðsynlegt tæki fyrir mig," segir hann og hlær. Siggi segist hlusta talsvert á tónlist í bílnum og finnst geislaspilarinn ómissandi. "Bíll er bara bíll í mínum huga en ég geri nú samt þá kröfu að hafa þá hljóðláta, þægilega og örugga. Einnig finnst mér nauðsynlegt að eiga bíl sem bilar lítið því ég nenni ekki að standa í því að þurfa að láta gera við hann. En ég er hæstánægður með bílinn minn því hann stenst allar þær kröfur sem ég geri í sambandi við bíla," segir Siggi Hall.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×