Umfjöllun: Ísland - Tyrkland 2-1 | Partíið framlengt um óákveðinn tíma

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ragnar Sigurðsson var í stuði í kvöld.
Ragnar Sigurðsson var í stuði í kvöld. vísir/daníel þór
EM-draumur strákanna okkar lifir heldur betur góðu lífi eftir stórkostlegan sigur, 2-1, á Tyrkjum á Laugardalsvelli í kvöld. Strákarnir sýndu frábæra frammistöðu og þeir sem héldu að partíið væri búið þurfa að skoða sín mál.

Það var varnarjaxlinn Ragnar Sigurðsson sem skoraði bæði mörk íslenska liðsins í leiknum og hann var ansi nálægt því að skora þrennu í leiknum.

Íslenska liðið var talsvert sterkara liðið í leiknum og sigur okkar manna sanngjarn. Liðið hefði hæglega getað skorað fleiri mörk í leiknum.

Þeir eru ansi margir sem hafa afskrifað Erik Hamrén landsliðsþjálfara enda gengið á ýmsu síðan hann tók við. Undir hans stjórn er liðið þó að skila sex stigum í algjörum lykilleikjum í júní. Það sem meira er þá minnti leikurinn í kvöld á gamla tíma. Það er langt síðan liðið spilaði svona vel og eflaust einhverjr sem héldu að það gæti ekki lengur skilað þetta góðri spilamennsku.

Hamrén mátti leyfa sér að fagna í kvöld.vísir/getty
Hamrén setti Jón Daða og Emil Hallfreðs inn í liðið í kvöld og gjörsamlega negldi réttu formúluna. Jón Daði hefur ekki spilað í tæpa fjóra mánuði. Það var ekki að sjá. Vinna hans var mögnuð og gaf liðinu svo mikið.

Hann slakaði aldrei á, dró í sig menn og opnaði svæðin fyrir félaga sína. Fyrir vikið komst sóknarleikurinn á miklu meira flug en oft áður.

Þar fyrir aftan voru Aron Einar og Emil eins og klettar og hleyptu engu fram hjá sér. Ef svo ólíklega vildi til að eitthvað færi í gegnum miðjuna þá biðu miðverðirnir. Þar í kring voru svo töframennirnir Gylfi Þór og Jóhann Berg að búa til hverja sóknina á fætur annarri. Óþreytandi og stútfullir af hæfileikum.

Þvílíkur hálfleikur

Fyrri hálfleikurinn var einn besti hálfleikur liðsins í langan tíma. Ef ekki hefði verið fyrir algjört óþarfa mark Tyrkja þá hefði mátt tala um fullkominn hálfleik. Tyrkir gerðu ekkert og alger óþarfi að gefa þeim mark. Að sama skapi hefði íslenska liðið átt að skora meira enda færin svo sannarlega til staðar.

Það var svo gaman að fylgjast með liðinu. Þessum krafti sem býr í liðinu, þessu skipulagi og þessari fórnfýsi í bland við brjálaða trú á að ekkert verkefni sé of stórt. Það var mjög snemma ljóst að þetta lið var ekki að fara að tapa í kvöld.

Aron Einar fyrirliði var frábær í kvöld.vísir/getty
Strákarnir gáfu svolítið eftir síðustu 20 mínútur leiksins. Virkuðu þreyttir eftir mikla vinnu. Þeir grófu síðan djúpt eftir aukaorkunni áður en þeir stimpluðu sig í sumarfrí með yndislegum þremur stigum.

Það var hvergi veikan blett að finna í leik íslenska liðsins í kvöld. Þessi frammistaða var á pari við það besta hjá liðinu síðustu ár. Strákarnir hafa alltaf talað um að þeir ætli sér aftur á EM og margir voru hættir að trúa því. Fólki er leyfilegt að byrja að trúa aftur. Strákarnir eru nefnilega ekkert að grínast.

Eins og Volvo væri lyft af Hamrén

Pressan á Hamrén og Frey landsliðsþjálfara var líka talsvert mikil og þessir tveir sigrar eru risasigrar fyrir þá persónulega. Eftir alls konar mótlæti þá small allt saman. Þeir eiga skilið einn í kvöld.

Svíinn gats heldur ekki leynt tilfinningum sínum í leikslok. Fagnaði gríðarlega og augljóslega þungu fargi af honum létt. Svona eiga menn að vera.

Stemningin á vellinum var líka mun betri en í Albaníuleiknum. Það var eins og sigurinn þar hefði vakið íslenska stuðningsmenn til lífsins. Það skilaði enn einu ógleymanlega kvöldinu á Laugardalsvelli. Megi þau aldrei hætta.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira