Íslenski boltinn

Eiður hættir með Fylki | Kristbjörg tekur við

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Benedikt Eiríksson er hættur sem þjálfari Fylkis í Pepsi-deild kvenna en þetta kom fram í tilkynningu frá félaginu í dag.

Eiður hættir strax með liðið og mun Hafsteinn Steinsson, aðstoðarþjálfari, einnig hætta. Kristbjörg Helga Ingadóttir, sem kom inn í þjálfarateymi Fylkis fyrr í sumar, stýrir liðinu í síðustu tveimur leikjum tímabilsins.

Fylkir hefur ekki náð sér á strik í sumar og uninð aðeins þrjá leiki af sextán. Liðið er í sjöunda sæti með þrettán stig og er í harðri fallbaráttu ásamt Selfossi, KR og ÍA.

Fylkir mætir Þór/KA á laugardag og leikur svo gegn Selfossi á heimavelli í lokaumferðinni.

Tilkynningunni frá Fylki fylgdi eftirfarandi yfirlýsing frá Eiði Benedikt.

„Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki, stjorn, stuðningsmönnum, sjálfboðaliðum, meðþjálfurum og leikmönnum fyrir samstarfið.

Frá fyrsta degi leið mér mjög vel hjá Fylki og er það sérstaklega því góða fólki sem kemur að klúbbnum að þakka.

Því miður var tímabilið mikil vonbrigði og tel ég að ástæðan fyrir því hafi verið að ég vildi breyta of miklu á stuttum tíma í stað þess að halda í það góða sem var fyrir.

Á þessu eina ári fengu margir ungir leikmenn sýna eldskírn með meistaraflokki og er ég viss um að þeir leikmenn munu verða lykilleikmenn með tíð og tíma. Með virðingu og vinsemd.

Eiður Benedikt Eiríksson“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×