Erlent

Hýdd 140 sinnum fyrir á­fengis­neyslu og kyn­líf utan hjóna­bands

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Alls voru sex hýddir opinberlega í Aceh í gær fyrir hin ýmsu siðferðisbrot.
Alls voru sex hýddir opinberlega í Aceh í gær fyrir hin ýmsu siðferðisbrot. Getty/Riza Azhari

Maður og kona voru hýdd 140 sinnum í Aceh í Indónesíu í gær, fyrir að hafa neytt áfengis og stundað kynlíf utan hjónabands. Bæði voru lamin í bakið með priki í almenningsgarði á meðan tugir fylgdust með en á endanum leið yfir konuna.

Sjaría lög hafa gilt í Aceh-héraði frá því að því var veitt sjálfstjórn að hluta árið 2001. Áfengisneysla, veðmál, kynlíf utan hjónbands og kynlíf einstaklinga af sama kyni eru meðal þess sem hefur verið bannað alla tíð síðan og viðurlögin hýðingar.

Bæði maðurinn og konan voru dæmd til að hljóta 40 högg fyrir áfengisneyslu og 100 högg fyrir kynlíf utan hjónbands. Um er að ræða einn strangasta dóminn sem fallið hefur frá því að lögin tóku gildi.

Konan missti meðvitund á meðan ofbeldið stóð yfir og var flutt í sjúkrabifreið.Getty/Riza Azhari

Fjórir aðrir voru hýddir í gær, meðal annars lögreglumaður og kona sem voru gripin glóðvolg í miklu návígi við hvort annað. Hlutu þau 23 högg hvort. Yfirmaður lögreglunnar í Aceh ítrekaði í samtali við AFP að sömu lög giltu fyrir lögreglumenn og aðra.

Tveir menn voru hýddir opinberlega í fyrra og hlutu 76 högg hvor, eftir að þeir voru fundnir sekir um að hafa átt í kynferðislegum samskiptum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×