Skoðun

Heil­næmt um­hverfi – má brjóta verk­efnið upp?

Pétur Halldórsson skrifar

Ísland er þekkt fyrir hreint og heilnæmt umhverfi, sem er ein af ástæðunum fyrir því að hér er gott að búa og landið er vinsæll ferðamannastaður. Drykkjarvatnið er tært, sundlaugarnar eru hreinar, leiksvæðin eru örugg og matarsýkingar eru fátíðar. Þessu hafa landsmenn vanist en er þessi góði árangur sjálfgefinn?

Fjölbreyttar umhverfishættur

Það að tryggja íbúum heilnæm lífsskilyrði í öllum sveitarfélögum landsins er víðfemt og margslungið verkefni. Matarsýkingar geta komið upp á leikskólum, starfsemi í blandaðri byggð getur valdið ónæði og eldsneyti getur lekið út í náttúruna. Þetta eru örfá dæmi en lykilatriðið er að þau gera ekki boð á undan sér og geta gerst hvar sem er á landinu.

Þverfaglegt heilbrigðiseftirlit

Á Íslandi er þessi áskorun leyst með nánu samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga starfa undir yfirumsjón ríkisstofnana á borð við Landlækni, Umhverfis- og orkustofnun og Matvælastofnun og ráða til sín heilbrigðisfulltrúa sem hafa reynslu á öllum sviðum heilbrigðiseftirlits. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og tryggir m.a. skjót viðbrögð í öllum sveitum landsins.

Skæruliðar í stjórnarráðinu

Nú er þó komin upp alvarleg staða því umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og atvinnuvegaráðherra tilkynntu á blaðamannafundi í september 2025 áform sín um að leggja niður Heilbrigðiseftirlitið og tvístra verkefnum þess til mismunandi stofnana, þ.e. Umhverfis- og orkustofnunar, Matvælastofnunnar og hvers og eins sveitarfélags á landinu. Áformin ganga gegn faglegum sjónarmiðum og líkjast því miður fyrri misheppnaðri tilraun ráðuneytisins sem er ennþá að baka vandræði fyrir samfélagið.

Skjóta fyrst og spyrja svo?

Það var svo nokkrum vikum eftir blaðamannafund ráðherranna sem steininn tók úr, þegar umhverfisráðuneytið sendi frá sér tölvupóst þar sem reynt var að afla upplýsinga um hvaða verkefnum heilbrigðiseftirlitið sinnir. Starfsmenn ráðuneytisins hafa sem sagt gert upp hug sinn áður en þau kynna sér hvert viðfangsefnið raunverulega er.

Ákall eftir samtali

Nú eru liðnir tveir mánuðir síðan Félag heilbrigðisfulltrúa (FHU) óskaði eftir fundi með umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til að lýsa yfir áhyggjum vegna umræddra áforma og koma á framfæri reynslu og fagþekkingu heilbrigðisfulltrúa. Áformin hafa þegar sett heilbrigðiseftirlit landsins í uppnám og því skiptir sköpum að taka samtalið á faglegum forsendum og koma í veg fyrir frekari röskun á nauðsynlegum samfélagsinnviðum.

Höfundur er heilbrigðisfulltrúi.




Skoðun

Sjá meira


×