Skoðun

Gefum ís­lensku séns

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Átakið Gefum íslensku séns hefur verið hýst hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða frá því á haustmánuðum 2024. Tilurð og þróun verkefnisins hefur skipt miklu máli og smám saman hefur það vaxið og dafnað. Dropinn holar steininn og móttökur hafa farið fram úr björtustu vonum. Það er vitundarvakning í þjóðfélaginu um stöðu íslenskunnar og mikilvægi þess að almenningur axli ábyrgð á því að miðla tungumálinu til þeirra sem vilja setjast að, lifa og starfa hér á landi.

Hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur verið umtalsverð aukning í aðsókn að íslenskunámskeiðum. Námskeiðin hafa aldrei verið fleiri og flest þeirra vel sótt. Árið 2022 sóttu 319 einstaklingar íslenskunámskeið en árið 2025 voru það 529 einstaklingar, sem er 65% aukning á þremur árum. Átakið Gefum íslensku séns hefur án efa átt þátt í að efla þátttöku og áhuga fólks á að læra málið, ekki síst með því að hvetja samfélagið til að taka þátt í miðla málinu og skapa aðstæður fyrir fólk sem er að læra til að hittast og tala saman á íslensku.

Stofnun félags

Gefum íslensku séns er átak sem stofnað var til í Háskólasetri og er hýst núna hjá Fræðslumiðstöð. Það hefur fengið að þróast og síðustu misseri hefur það tekið flugið og skotið rótum víða um land. Það er ánægjulegt að upplifa þann áhuga sem átakið hefur fengið og það segir okkur að það var þörf fyrir slíkt framtak og að hugmyndafræðin á bak við það er að virka.

Nú er komið að því að stofna almennt félag um átakið. Tilgangur félagsins er að hafa fast form í kringum verkefnið og styðja við markmið þess, sem felast í því að auka vitund fólks fyrir máltileinkun íslenskunnar, stuðla að inngildandi samfélagi og gefa öllum íbúum séns á að nota íslenskuna við sitt hæfi miðað við aðstæður hverju sinni.

Landið allt

Gefum íslensku séns hefur tekið flugið og sveitarfélög og símenntunarstöðvar víðs vegar um landið hafa tekið þessa hugmyndafræði upp. Það er ánægjulegt að fylgjast með þeim áhuga sem verkefnið hefur vakið og þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur um mikilvægi þess að kenna og nota íslensku. Íslenskan er opinbert mál á Íslandi og þegar kemur að inngildingu fólks af erlendum uppruna er hún lykillinn að jafnrétti og jöfnum tækifærum í samfélaginu.

Höfundur er verkefnastjóri. 




Skoðun

Sjá meira


×