Handbolti

„Allt sem vantaði í síðasta leik var til staðar í dag“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Haukur Þrastarson spilaði mjög góðan varnarleik gegn Svíþjóð.
Haukur Þrastarson spilaði mjög góðan varnarleik gegn Svíþjóð. vísir vilhelm

„Geggjuð orka, bæði í stúkunni og hjá okkur. Allt sem vantaði í síðasta leik fannst mér vera til staðar í dag“ sagði landsliðsmaðurinn Haukur Þrastarson eftir 27-35 sigur gegn Svíþjóð á EM í handbolta.

Haukur skoraði eitt mark, gaf eina stoðsendinga og lét vel til sín taka varnarlega með sjö löglegar stöðvanir. Hann segir stuðninginn úr stúkunni hafa gefið strákunum okkar orkuna sem þeir þurftu til að leggja Svía að velli.

„Þetta gefur ótrúlega mikla orku. Ef maður er eitthvað þreyttur í smástund þá geturðu sótt í þessa orku, stúkan var geggjuð í dag og við fundum ótrúlega vel fyrir henni.“

Svíþjóð náði góðu áhlaupi í seinni hálfleik og minnkaði muninn niður í aðeins eitt mark. Ísland tók þá leikhlé en Haukur segir enga ónotatilfinningu hafa læðst inn.

„Alls ekki. Við héldum ró og sýndum það. Þetta var ekkert panikk, héldum bara ró okkar og gerðum vel, náðum okkur aftur í gang. Það er alveg eðlilegt og við vissum alveg að þeir myndu ná áhlaupi, við duttum kannski full mikið niður en vorum fljótir að stíga upp.“

Klippa: Haukur Þrastarson eftir sigurinn gegn Svíþjóð



Fleiri fréttir

Sjá meira


×