Handbolti

Norð­menn með flautuna í Malmö

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kleven og Jörum dæma leik dagsins í Malmö milli Íslands og Svíþjóðar.
Kleven og Jörum dæma leik dagsins í Malmö milli Íslands og Svíþjóðar. Soeren Stache/picture alliance via Getty Images

Það verður Norðurlandabragur á leik Íslands við Svíþjóð í Malmö í dag. Norskt dómarapar gætir þess að allt fari siðsamlega fram.

Ísland mætir gestgjöfum Svía í dag en þeir sænsku hafa spilað alla leiki sína í 13 þúsund manna höllinni í Malmö og unnið þá alla nokkuð örugglega.

Verkefnið er snúið gegn einu allra besta liði heims á þeirra heimavelli. Búist er við um 2.500 til 3.000 Íslendingum í höllina en hinir 10 þúsund verða líklega Svíar að styðja sitt lið til sigurs.

Norðmennirnir Lars Jørum og Håvard Kleven munu dæma leik dagsins og eru þeir fyrsta dómaraparið frá Norðurlöndum sem dæmir hjá Íslandi á mótinu. Spánverjar, Norður-Makedóníumenn og Serbar hafa dæmt leikina fjóra hjá Íslandi hingað til.

Um er að ræða þriðja leikinn sem norska parið dæmir á mótinu og þann fyrsta í milliriðli. Þeir dæmdu 38-35 sigur Slóveníu á Sviss í Osló og 29-28 sigur Ítala á Póllandi í riðli Íslands í Kristianstad.

Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst klukkan 17:00 í dag og verður lýst beint á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×