Skoðun

Þróunar­sam­vinna eflir öryggi og varnir Ís­lands

Birna Þórarinsdóttir, Bjarni Gíslason, Gísli Rafn Ólafsson, Hrönn Svansdóttir, Stella Samúelsdóttir og Tótla I. Sæmundsdóttir skrifa

Fjölmörg ríki heims hafa stóraukið framlög sín til varnarmála á undanförnum árum til að bregðast við auknum umbrotum og átökum á alþjóðavettvangi. Á sama tíma hafa hátekjuríki dregið verulega úr fjármögnun til þróunarsamvinnu í lágtekjuríkjum. Þá hafa ríki einnig tekið upp á því að skilgreina framlög til varnartengdra útgjalda sem þróunaraðstoð.

Við sem störfum fyrir frjáls félagasamtök í þróunarsamvinnu viljum vara við þessari áherslubreytingu á alþjóðavísu, sem hefur komið niður á stuðningi við lífsbjargandi verkefni í fátækustu löndum heims. Með því að færa fjármagn til á þennan hátt og draga úr framlögum til þróunarsamvinnu hefur orðið samdráttur í alþjóðlegum fjárfestingum í uppbyggingu heilbrigðis-, mennta-, lýðræðis- og atvinnumála. Til lengdar mun þessi þróun leiða til aukinnar fátæktar og ójöfnuðar, sem ýtir undir fólksflótta, vopnuð átök og útbreiðslu smitsjúkdóma. Allt eru þetta ógnir sem minnka öryggi í alþjóðakerfinu og kalla á kostnaðarsöm viðbrögð ríkja þegar skaðinn er skeður. Fjárfesting í alþjóðlegri þróunarsamvinnu er því fjárfesting í stöðugleika og öryggi.

Í stefnu íslenskra stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024-2028 er áréttað að alþjóðleg þróunarsamvinna gegni lykilhlutverki við úrlausn þeirra fjölþættu áskorana sem heimurinn stendur frammi fyrir „því hún stuðlar að aukinni velsæld, sjálfbærni og jöfnuði sem getur af sér stöðugleika, allri heimsbyggðinni til hagsbóta.“ Alþingi samþykkti samhljóðandi ályktun einróma fyrir tveimur árum og þessi afstaða endurspeglast einnig í greinargerð við þingsályktunartillögu um varnar- og öryggismál sem nú er til umsagnar á Alþingi.

Það hefur lengi verið markmið íslenskra stjórnvalda að framlög til þróunarsamvinnu séu hið minnsta 0,7% af vergum þjóðartekjum. Í samþykktri stefnu er áætlun um að framlög til þróunarsamvinnu vaxi úr 0,35% í 0,46% á tímabilinu. Frjáls félagasamtök fögnuðu þeirri hækkun en hafa bent á að töluvert skorti upp á að 0,7% takmarkinu sé náð.

Frjáls félagasamtök í þróunarsamvinnu ítreka að aldrei hafi verið jafn mikilvægt og nú, að Ísland standi með málaflokki þróunarsamvinnu og neyðaraðstoðar, styðji við alþjóðakerfið og stuðli að virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og mannréttindum sem standa höllum fæti. Jafnframt fögnum við því að kveðið er á um áframhaldandi stuðning við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi í stefnu stjórnvalda í varnar- og öryggismálum, lögð sé áhersla á að tryggja þátttöku kvenna á öllum sviðum ákvarðanatöku og framkvæmdar og að mið sé tekið af kynjasjónarmiðum við ákvörðun fjárveitinga.

Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum. Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.

Höfundar eru:

  • Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi
  • Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar
  • Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi
  • Hrönn Svansdóttir, framkvæmdastjóri ABC barnahjálpar
  • Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women Ísland
  • Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi



Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×