Lífið

Rybak snýr aftur en frægir bræður snið­ganga

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Alexander Rybak kom sá og sigraði Eurovision fyrir Noreg árið 2009 og hafði þannig mögulegan sigur af Íslandi sem lenti í öðru sæti sama ár.
Alexander Rybak kom sá og sigraði Eurovision fyrir Noreg árið 2009 og hafði þannig mögulegan sigur af Íslandi sem lenti í öðru sæti sama ár. Getty/Oleg Nikishin

Norski tónlistarmaðurinn Alexander Rybak verður meðal þátttakenda í norsku söngvakeppninni Melodi Grand Prix, undankeppni Norðmanna fyrir Eurovision sem fer fram í Austurríki í vor. Þannig leitast Rybak við að verða fulltrúi Noregs í þriðja sinn, en sautján ár eru síðan hann vann Eurovision með nokkrum yfirburðum árið 2009, þegar Jóhanna Guðrún hafnaði í öðru sæti fyrir Ísland. Önnur þekkt norsk hljómsveit hefur hin vegar dregið sig úr undankeppninni bandið vill ekki stíga á svið samhliða fulltrúa Ísraels.

Norska ríkisútvarpið NRK hefur svipt hulunni af átta af þeim níu listamönnum sem taka þátt í undankeppninni í ár. Níunda lagið verður valið af almenningi í sérstakri kosningu sem fer af stað á morgun.

Óhætt er að segja að Alexander Rybak sé eitt stærsta nafnið á listanum að mati Eurovision-aðdáenda. Eftir glæstan sigur árið 2009 tók hann aftur þátt í aðalkeppni Eurovision árið 2018 með lagið That‘s How You Write a Song sem hafnaði í 15. sæti. Nú reynir hann aftur.

Aðrir listamenn sem liggur fyrir að taki þátt í Melodi Grand Prix í Noregi ásamt Alexander Rybak verða Hedda Mae, Mileo, Emma, Storm, Leonardo Amor, Silke og Jonas Lovv.

Þá vakti athygli samkvæmt frétt norska miðilsins VG þegar Ylvis-bræðurnir, þeir Bård og Vegard Ylvisåker, sem eru hvað þekktastir fyrir lagið The Fox, hefðu hætt við þátttöku í Melodi Grand Prix. Lagið sem skaut bræðrunum upp á stjörnuhimininn fjallar í stuttu máli um hvað það er sem refurinn segir, og margir Íslendingar kannast eflaust við.

Bræðurnir tilkynntu um þetta á Instagram um helgina en í yfirlýsingu segjast þeir ekki vilja standa á sama sviði og Ísraelar og að þeir séu á þeirri skoðun að Ísrael ætti ekki að fá að vera með í keppninni. Líkt og kunnugt er hafa nokkur ríki dregið sig úr Eurovision í ár vegna þátttöku Ísraels, þar á meðal Ísland.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.