Viðskipti innlent

Veitti Vélfagi leyfi til að greiða laun

Kjartan Kjartansson skrifar
Landsbankinn frysti vörslureikning lögmanns Vélfags í byrjun janúar. Utanríkisráðuneytið , sem er nágranni Landsbankans,veitti undanþágu frá þvingunaraðgerðum í gær.
Landsbankinn frysti vörslureikning lögmanns Vélfags í byrjun janúar. Utanríkisráðuneytið , sem er nágranni Landsbankans,veitti undanþágu frá þvingunaraðgerðum í gær. Vísir/Vilhelm

Utanríkisráðuneytið veitti Vélfagi heimild til þess að greiða starfsmönnum fyrirtækisins laun af frystum reikningi í gær. Landsbankinn frysti reikning lögmanns Vélfags eftir að fjármunir félagsins voru millifærðir á hann.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Vélfags, kvartaði undan því í byrjun vikunnar að Landsbankinn hefði fryst vörslureikning lögmannsstofu hans þegar fé fyrirtækisins var flutt á hann í byrjun janúar. Þess vegna hafi ekki verið hægt að greiða starfsmönnum laun fyrir desember.

Utanríkisráðuneytið hefði ekki veitt undanþágu til þess að losa féð og aðeins sagst hafa málið til skoðunar þrátt fyrir að það hefði gefið grænt ljós á greiðslu launanna í desember.

Undanþágan til að greiða launa og launatengd gjöld starfsmanna fyrir desember með frystum fjármunum Vélfags á vörslureikningnum var veitt í gær, að því er segir í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Vísis. Það var daginn eftir að grein Sigurðar þar sem hann lýsti atvikum birtist á Vísi.

Þar kemur fram að Landsbankinn hafi fryst vörslureikninginn vegna fjármuna í eigu Vélfags sem voru lagðir inn á hann.

Veitti ekki undanþágu vegna sölu á eignum

Arion banki frysti fjármuni Vélfags í sumar vegna ætlaðra tengsla meirihlutaeiganda félagsins við rússneska aðila á þvingunarlista Evrópusambandsins.

Vélfagi tókst hvorki að sannfæra bankann né utanríkisráðuneytið um að eigandinn væri ekki í reynd leppur fyrri eigenda sem eru á þvingunarlistanum. Þeim starfsmönnum félagsins sem eftir voru var sagt upp störfum í nóvember.

Utanríkisráðuneytið veitti undanþágu til að greiða laun starfsmanna af frystum reikningi hjá Arion banka á Þorláksmessu. Í greininni sem Sigurður, lögmaður Vélfags, skrifaði á Vísi kom fram að launagreiðslan hafi verið fjármögnuð með sölu eigna í desember. Íslandsbanki hefði lagt söluandvirðið inn á vörslureikninginn.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að það hafi ekki veitt sérstaka undanþágu fyrir eignasölunni enda sæti þær ekki fyrstingu af hálfu þeirra fjármálastofnana sem hafa fryst fjármuni félagsins.

Þvingunaraðgerðirnar sem Vélfag sætir eru vegna tilrauna rússneskra stjórnvalda til þess að grafa undan stöðugleika í Evrópu. Norebo JSC, fyrrverandi eigandi Vélfags, er talið tengt svonefndum skuggaflota Rússa sem þeir nota til skemmdarverka í Evrópu og til að komast fram hjá viðskiptaþvingunum.

Ivan Kauffmann, núverandi meirihlutaeigandi Vélfags, er talinn tengjast Norebo. Hann keypti félagið örfáum dögum áður en Norebo var sett á þvingunarlistann.

Hæstiréttur samþykkti í vikunni að taka upp mál Vélfags gegn íslenska ríkinu. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið af kröfu fyrirtækisisn um endurskoðun frystingarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×