Enski boltinn

Utandeildarlið henti meisturunum úr keppni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Isaac Buckley-Ricketts fagnar marki sínu gegn bikarmeisturunum.
Isaac Buckley-Ricketts fagnar marki sínu gegn bikarmeisturunum. Michael Regan/Getty Images

Utandeildarlið Macclesfield gerði sér lítið fyrir og sló bikarmeistara Crystal Palace úr leik í ensku bikarkeppninni í fótbolta.

Fjórir leikir fóru fram í FA-bikarnum í hádeginu þar sem fjögur úrvalsdeildarlið voru í eldlínunni. Bikarmeistarar Crystal Palace áttu auðveldasta verkefnið á pappír, í heimsókn hjá Macclesfield, sem leikur í sjöttu efstu deild á Englandi.

Palace-menn áttu í vandræðum í leiknum. Þeir komust lítt áleiðis gegn varnarmúr heimamanna á gervigrasvelli heimamanna. Macclesfield reyndi við skyndisóknir og gekk töluvert betur að skapa sér vænlegar sóknarstöður þrátt fyrir gæðamun.

Macclesfield komst yfir þökk sé skallamarki miðjumannsins Paul Dawson undir lok fyrri hálfleiks og allt trylltist á vellinum. Fögnuðurinn var ekki mikið minni þegar framherjinn Isaac Buckley-Ricketts skoraði annað mark liðsins á 60. mínútu.

Palace tókst ekkert að ógna forystu Macclesfield af skapi og 2-0 lauk leiknum. Bikarmeistararnir því óvænt úr leik en Macclesfield sem er í næst efstu utandeild Englands komið áfram.

Framlengt í Liverpool

Úrvalsdeildarslagur var milli Everton og Sunderland í Liverpool-borg. Þar kom Frakkinn Enzo Le Feé gestunum yfir en James Garner jafnaði úr vítaspyrnu undir lok leiks. Leiknum lauk 1-1 og framlenging stendur yfir.

Wolves vinnur ekki marga leiki þessi dægrin en hafði betur gegn D-deildarliði Shrewsbury 6-1 þar sem Norðmaðurinn Jörgen Strand Larsen skoraði þrennu.

B-deildarlið Leicester City fór þá áfram eftir 2-0 útisigur á D-deildarliði Cheltenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×