Erlent

Víða truflanir í Evrópu vegna snjó­komu

Samúel Karl Ólason skrifar
Snjókoma hefur sett strik í reikninginn í París í dag.
Snjókoma hefur sett strik í reikninginn í París í dag. EPA/Teresa Suarez

Flugferðum hefur verið frestað vegna veðurs nokkuð víða í Vestur-Evrópu en óveðrið Goretti hefur leitt til ýmissa truflana á svæðinu. Vegum hefur verið lokað og þá hafa truflanir orðið á lestarferðum, svo eitthvað sé nefnt.

Veðurviðvaranir eru í gildi á Bretlandseyjum, í norðanverðu Frakklandi, Hollandi og víðar og hefur óvenjumikil snjókoma víða sett strik í reikninginn, samkvæmt frétt Reuters.

Goretti fór yfir Bretlandseyjar í gær og fylgdi mikil snjókoma óveðrinu.

Í Hollandi hafa yfirvöld beðið fólk um að vinna heima eins og hægt er og í víða í Frakklandi er búið að banna akstur trukka og skólarúta vegna veðursins.

France24 sagði frá því í morgun að búið væri að fresta um hundrað flugferðum frá Charles de Gaulle flugvellinum í París. Miðillinn sagði einnig frá því að að minnsta kosti sex Frakkar hefðu dáið vegna veðursins.

Svipaða sögu er að segja frá Þýskalandi þar sem snjóað hefur víða. DW segir truflanir þó tiltölulega litlar en einhver slys hafi orðið vegna færðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×