Körfubolti

Tapað öllum án Sigurðar: „Ef hann er heill þá er hann bara í botni“

Sindri Sverrisson skrifar
Gögnin sýna að Sigurðar Péturssonar er sárt saknað þegar hans nýtur ekki við.
Gögnin sýna að Sigurðar Péturssonar er sárt saknað þegar hans nýtur ekki við. Sýn Sport

„Það er erfitt að fíla ekki Sigga,“ sagði Hlynur Bæringsson í Bónus Körfuboltakvöldi á Sýn Sport Ísland í gærkvöld. Þar barst talið að Sigurði Péturssyni sem tölurnar sýna að er nær ómissandi fyrir lið Álftaness.

Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld - Umræða um Sigurð Péturs

Eins og bent var á í Körfuboltakvöldi í gær þá hefur Álftanes tapað öllum leikjum sínum í vetur þegar Sigurður er ekki með. Hann var frá keppni hluta nóvember og í desember, í mikilli taphrinu sem endaði með því að þjálfarinn Kjartan Atli Kjartansson sagði starfi sínu lausu.

Sigurður var hins vegar með í fyrsta leik á nýju ári, í 110-75 sigri gegn Ármanni, og skoraði þar tíu stig á því korteri sem hann spilaði. Orkan sem af honum stafar heillaði menn:

„Hann er alltaf á fullu. Ef hann er mögulega heill þá er hann bara í botni,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson.

Stefán Árni Pálsson sýndi þá áhugaverða tölfræði um Sigurð og benti á að það skipti greinilega miklu máli fyrir Álftnesinga að hafa hann inni á vellinum.

„Hann keyrir upp tempóið sem þá vantar svolítið. Það var svo sem ekkert að marka þennan leik en það er ofboðslega mikilvægt fyrir þá að hafa hann til að breyta aðeins hraðanum í leiknum. Þeir fengu hann líka til þess. Fjarvera hans litaði þetta slæma gengi hjá þeim. Gegn þessum erfiðu liðum þá hefðu þeir þurft hann,“ sagði Hlynur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×