Körfubolti

„Viljum gera at­lögu að titlinum en því miður er það ekki raun­hæft“

Kári Mímisson skrifar
Borce Ilievski er þjálfari ÍR-inga en segir að liðið vanti meiri breidd.
Borce Ilievski er þjálfari ÍR-inga en segir að liðið vanti meiri breidd. Vísir/Anton Brink

Það var uppgefinn en ánægður Borce Ilievski sem mætti til viðtals strax að loknum dramatískum sigri ÍR gegn Keflavík nú í kvöld. Borce segist sannarlega vera ánægður með sigurinn en nefnir þó að lukkudísirnar hafi vakað yfir liðinu í kvöld.

„Ég er þreyttur en á sama tíma er ég mjög ánægður með sigurinn. Þetta var ekki auðvelt og Keflavík er með gott lið jafnvel þó að Remy Martin hafi ekki verið með þeim í kvöld. Við vorum í miklum vandræðum með að dreifa mínútum milli leikmanna í dag sem gerði það að verkum að við vorum mjög þreyttir hér undir lokin,“ sagði Borce Ilievski.

Ekki okka besti leikur

 Ég verð að viðurkenna að þetta var ekki okkar besti leikur en ég er mjög ánægður með Dimi (Dimitrios Klonaras) sem skoraði þessar mikilvægu þriggja stiga körfur sem við þurftum á að halda hér undir lok leiksins. Jafnvel þó að leikurinn hafi ekki verið fallegur þá var alvöru spenna í honum og Hilmar setur risa körfu fyrir þá hér undir lokin og við klúðrum í kjölfarið tveimur vítum, þannig að við vorum líka heppnir,“ sagði Borce.

ÍR-ingar spiluðu mjög vel lengstan hluta leiksins eða allt þar til í fjórða leikhluta þar sem bensínið virtist hreinlega vera búið og taugarnar yfirspenntar. Liðið náði ekki að gera körfu í tæplega átta mínútur og þá skoraði liðið aðeins tíu stig á síðustu þrettán mínútum leiksins. Borce segir að álagið hafi verið mikið hjá sínum mönnum sem hafi heldur betur barist fyrir þessum tveimur stigum í kvöld.

Berjumst og skiljum hjörtun eftir á vellinum

„Þegar Tómas Orri meiðist þá er það alveg ljóst að við erum að fara að spila 40 mínútur á fimm leikmönnum og það segir sig sjálft að það er erfitt. Svo eru auðvitað aðrir hlutir eins og að þeir eru að koma úr pásu sem sást á báðum liðum í kvöld. Við berjumst og skiljum hjörtun eftir á vellinum og ég er hrikalega ánægður með strákana mína sem eiga algjöran heiður skilið fyrir þennan sigur,“ sagði Borce.

Nú þegar deildin er hálfnuð er lið ÍR í sjöunda sæti með 10 stig. Spurður út í framhaldið og hversu sáttur hann sé með fyrri partinn af deildinni segir Borce að hann sé spenntur fyrir komandi tímum en í ljósi þess að hópurinn sem hann hefur úr að velja sé ekki stærri en raunin er þá taki hann í rauninni bara einn leik í einu.

Ég vil vera jákvæður

„Ég vil vera jákvæður núna og segja að við viljum gera atlögu að Íslandsmeistaratitlinum en því miður er það ekki raunhæft í ljósi þess hversu þunnskipaðir við erum. Vonandi eru meiðslin hjá Tomma ekki alvarleg og vonandi getur nýi króatíski leikmaðurinn okkar, Emilio, spilað næsta leik. Hann mun gefa okkur aukinn kraft svo að aðrir leikmenn geti hvílt sig aðeins á bekknum og sýnt sínar bestu frammistöður á vellinum,“ sagði Borce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×