Upp­gjörið: Njarð­vík - Grinda­vík 123-124 | Grinda­vík með ó­trú­legan endurkomusigur

Siggeir F. Ævarsson skrifar
Deandre Kane byrjaði á bekknum en skoraði 21 stig.
Deandre Kane byrjaði á bekknum en skoraði 21 stig. Vísir/Anton Brink

Njarðvíkingar tóku á móti Grindvíkingum í grannaslag í kvöld í Bónus-deild karla í fyrsta leik liðanna eftir langt jólafrí og það er ekki laust við að jólasteikurnar hafi aðeins setið í mönnum, þó sérstaklega gestunum sem virkuðu hægir og hálf rænulausir á köflum, þá sérstaklega varnarmegin.

Leikurinn var mjög jafn framan af þar sem hvorugu liðinu tókst að slíta sig frá hinu. Grindvíkingar byrjuðu með DeAndre Kane á bekknum og Njarðvíkingar með Sven Smajlagic en þeir komu báðir til landsins í morgun.

Sigur var báðum liðum eflaust ofarlega í huga en Njarðvíkingar voru búnir að tapa þremur leikjum í röð og Grindvíkingar að leita að taktinum góða og vildu án vafa verja toppsætið í deildinni. Það var því lítið gefið eftir og það kom smá hiti í menn eftir því sem leið á fyrri hálfleik, án þess þó að það syði upp úr.

Njarðvíkingar leiddu með einu stigi eftir fyrsta leikhluta og með tveimur í hálfleik. Staðan 53-51 í leik sem var á þessum tímapunkti galopinn.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af mun meiri krafti en Grindvíkingar sem gekk illa bæði að sækja og verjast. Eftir tvö atvik þar sem varnarmenn Grindvíkinga sofnuðu algjörlega á verðinum tók Jóhann Þór leikhlé í stöðunni 73-65. Það skilaði þó Grindvíkingum ekki miklu en Njarðvíkingar komust tólf stigum yfir fyrir lokaleikhlutann þegar Milka lokaði þeim þriðja með sínum þriðja þristi í leikhlutanum.

Grindvíkingar voru einfaldlega heillnum horfnir eftir því sem leið á leikinn og aldrei líklegir til að brúa bilið sem Njarðvíkingar náðu að búa sér til. Þeir fundu engu að síður einhvern aukakraft síðustu tvær mínúturnar og tókst á einhvern ótrúlegan hátt að knýja fram framlengingu þegar Jordan Semple náði frákasti eftir víti sem Shabazz klikkaði viljandi á.

Grindvíkingar reyndust örlítið sterkari í framlengingunni og innsigluðu sigurinn með frábærum varnarleik, eitthvað sem vantaði sárlega stærstan partinn úr leiknum.

Ótrúlegur endurkomusigur Grindavíkur niðurstaðan hér í Njarðvík í kvöld. Vonandi er nóg til að sprengitöflum á Suðurnesjum!

Atvik leiksins

Þristurinn frá Milka undir lok þriðja leikhluta var eins og blaut tuska í andlit Grindvíkinga, og ekki var nú hátt á þeim risið fyrir. Hann hefði örugglega orðið atvik leiksins ef Njarðvík hefði klárað leikinn í venjulegum leiktíma.

En atvik leiksins er án vafa karfan frá Jordan Semple til að jafna leikinn og setja hann í framlengingu.

Ótrúlega vel framkvæmt hjá Grindvíkingum, fullkomlega klikkað úr vítinu hjá Shabazz sem tók vítið snöggt og Njarðvíkingar virtust einfaldlega ekki átta sig hvað væri í gangi.

Stjörnur og skúrkar

Jordan Semple og Khalil Shabazz voru stjörnur kvöldsins. Shabazz setti stóra þrista undir lokin og Semple kom leiknum í framlengingu. 34 stig og sjö stoðsendingar frá Shabazz, og fimm stolnir að auki. Semple skilaði 27 stigum og tólf fráköstum.

Þá var DeAndre Kane drjúgur þegar leið á leikinn og skilaði 21 stigi í hús samhliða því að þurfa að dekka Dwayne Lautier megnið af leiknum.

Hjá Njarðvík var áðurnefndur Lautier stigahæstur með 32 stig og fjórtán stoðsendingar, en tapaði líka níu boltum. Brandon Averette skilaði góðu framlagi í kvöld, 24 skilvirk stig frá honum og Veigar Páll bætti við 23 og var raunar ekki langt frá þrefaldri tvennu, með ellefu fráköst og níu stoðsendingar

Dómarar

Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll Friðriksson og Davíð Kristján Hreiðarsson dæmdu leikinn í kvöld og höfðu meira en nóg að gera. Njarðvíkingar eru eflaust ósáttir við einhverja dóma, eins og villuna á Milka undir lokin sem og að Kane hafi fengið að hamra í spjaldið án afleiðinga. Einhver sem þekkir reglurnar betur en ég verður þó að dæma um hvort þetta hafi verið réttar ákvarðanir.

Stemming og umgjörð

Það er alltaf notalegt að koma í Icemar höllina í Njarðvík. Umgjörðin og móttökurnar alltaf upp á tíu. Það var reyndar bras á annarri skotklukkunni fyrir leik en það var skipt um hana með hraði hálftíma fyrir leik. Vel mætt í Njarðvík í kvöld og stúkan þéttsetin, bæði Njarðvíkur- og Grindavíkurmegin. Vantaði samt einhverja vel stemmda meistara til að keyra lætin upp. Það lifnaði þó vissulega yfir stúkunni undir lokin enda stemmingin í húsinu rafmögnuð.

Viðtöl

Rúnar Ingi: „Við þurfum að læra að loka leikjum“

Rúnar Ingi þarf að finna leiðir til að loka leikjumvísir / diego

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var greinilega drullusvekktur með tapið í kvöld enda var Njarðvíkurliðið með unninn leik í höndunum sem leikmenn liðsins köstuðu frá sér.

Rúnar var lengi að koma orðum að því hvernig honum leið með þetta svekkjandi tap en var svo orðið nokkuð mikið niðri fyrir þegar hann rifjaði upp villuna sem Daniel Mortensen sótti á Dominykas Milka undir lokin.

„Maður er eiginlega orðlaus yfir þessu. Hvernig við köstum þessu frá okkur. Við erum með þetta í unnum leik. Auðvitað setja þeir stór skot og við erum svona að svara en inn á milli erum við kærulausir með boltann. Slökkvum á heilanum. En aftur, við erum eiginlega með þetta í unnum leik.“

„Ég er ekki búinn að sjá þetta en þessi villa sem Daniel Mortensen fær að taka eitthvað ömurlegt þriggjastigaskot í hraðaupphlaupi. Mér fannst Milka ekki stíga inn í hann, þetta var bara ömurlegt þriggjastiga skot og þeir verðlauna það með þremur vítum og það gaf þeim séns. Það er bara ógeðslega erfitt að kyngja því þegar við erum búnir að leggja ógeðslega vinnu í það að fá fullt af framlagi frá allskonar gaurum og koma okkur í þessa stöðu. Bara súrt og við þurfum að finna leiðir til að loka leikjum.“

Bæði lið brutu mikið undir lokin og Njarðvíkingar voru án þeirra Milka og Averette í framlengingunni sem voru báðir komnir með fimm villur. Rúnar var ekki endilega á því að fjarvera þeirra hefði komið í bakið á Njarðvíkingum, en villurnar sjálfar gerðu það.

„Við vildum náttúrulega ekki brjóta hérna í seinna skiptið. Vorum búnir að tala um að brjóta í fyrra skiptið, það er alveg eðlilegra. Við erum þremur stigum yfir og Shabazz er með boltann á þessum enda vallarins og fjórar sekúndur eftir. Hann er alltaf að fara í eitthvað erfitt ævintýraskot. Auðvitað geturðu sagt ef hann hittir þá hefðum við átt að brjóta en ég var allavega ekki að kalla að við þyrftum að brjóta á honum strax. Þetta var kannski ofhugsun hjá mínum mönnum inn á vellinum sem líka bítur okkur í rassinn.“

Ljós punktur í leik Njarðvíkinga í kvöld var Sven Smajlagic sem kann greinilega ýmislegt fyrir sér í körfubolta.

„Klárlega. Hann er kannski að spila töluvert meira en ég gerði ráð fyrir en hann spilar af því að við sjáum að hann er góður í körfu. Hann er klókur. Það sást alveg líka að hann á eftir að kveikja í netinu hérna þegar það líður á tímabilið. Þegar hann er kominn með lappir undir sig og ekki nýlentur. Hann setti stór skot og var að keyra á körfuna. Ég var að reyna að ýta mönnum í það að finna hann aðeins meira í framlengingunni. En svo fór sem fór og við þurfum að læra að loka leikjum.“

DeAndre Kane: „Þetta snérist bara um að vilja ekki tapa þessum leik“

DeAndre Kane kann illa við að tapa körfuboltaleikjumVísir/Guðmundur

DeAndre Kane var mikilvægur Grindvíkingum í kvöld en varnarleikur hans í lokin var lykilpartur í sigri liðsins. Hann sagði að endurkoman í kvöld hefði fyrst og fremst verið liðsframmistaða.

„Þetta var frábær liðssigur. Við vorum tíu stigum undir þegar það voru þrjár mínútur eftir en við héldum einbeitingu og stóðum saman. Jóhann tók gott leikhlé, teiknaði upp kerfi og við komumst í takt sóknarlega. Vörnin hrökk í gang og við komum til baka og kláruðum þetta.“

Varnarleikur Grindvíkinga var ekki til útflutnings lengst af leiknum en undir lokin hrökk liðið loks í gír og sýndi úr hverju leikmennirnir eru gerðir.

„Þetta snérist bara um að vilja ekki tapa þessum leik. Svona leikir, eftir langt hlé, eru alltaf erfiðir, þetta er í annað sinn sem við förum illa af stað eftir langt hlé og við vorum flatir hér í byrjun. En við fundum leiðir og stóðum saman. Njarðvík er gott lið, eru með frábæra leikmenn og góðan þjálfara. Einhverjir þeirra fengu fimm villur sem hjálpaði okkur vissulega en við hættum aldrei og náðum að sigla þessu heim.“

Kane skilaði góðri frammistöðu í kvöld á báðum endum vallarins þrátt fyrir að vera bara nýkominn til landsins. Hann var þó ekki á því að flugþreyta hefði plagað hann í kvöld.

„Þegar ég er inn á vellinum þá gef ég 100 prósent í leikinn, sama hvað. Ég held að ég hafi alls ekki verið flugþreyttur.“

Blaðamaður hefur áður fengið svipuð svör frá Kane þegar hann hefur verið spurður út í meiðsli. Hann gerir alltaf lítið úr ytri þáttum sem hann skilur að sögn eftir fyrir utan völlinn.

„Á vellinum þá er ég á vellinum. Svo díla ég bara við hitt þegar ég er kominn af vellinum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira