Sport

Skar sig á klósettinu milli leikja

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gian van Veen blóðgaði sig óvart í gær. 
Gian van Veen blóðgaði sig óvart í gær.  Andrew Redington/Getty Images

Gian van Veen greindi frá ástæðu þess að blóðdropi sást á píluspjaldinu í úrslitaleik HM í gærkvöldi. Hann skar sig óvart þegar hann fór á klósettið milli leikja.

Áhorfendur í salnum og andstæðingurinn Luke Littler furðuðu sig mjög á því þegar blóðdropi sást allt í einu á reit númer fimm á spjaldinu.

Dómarinn George Noble stöðvaði leikinn og bað um að spjaldinu yrði skipt út. Luke Littler vann leikinn síðan örugglega 7-1 og varð heimsmeistari annað árið í röð.

„Já þetta var óvenjulegt“ sagði Gian van Veen á blaðamannafundi eftir úrslitaleikinn. 

„Luke sagði það líka, bara hvað er í gangi hérna? En þetta gerðist þegar ég fór á klósettið, ég festi mig eitthvað í hurðinni og fékk sár á litla puttann. Svo slettist blóð á spjaldið þegar ég fór að sækja pílurnar.“

Hollendingurinn var ekkert svo svekktur með tapið og hrósaði Littler í hástert. Hann sagði árið 2025 hafa verið það besta á ferlinum en hann varð Evrópumeistari, heimsmeistari ungmenna og tók svo fram úr samlanda sínum Michael van Gerwen á heimslistanum með árangrinum á HM.

„Ég er bara orðinn spenntur fyrir 2026, ég ætla að njóta hverrar mínútu og vona að þetta ár verði jafn gott og það síðasta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×