Íslenski boltinn

Adda verður hægri hönd Ian Jeffs í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir snýr aftur á hliðarlínuna í Bestu deild kvenna næsta sumar.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir snýr aftur á hliðarlínuna í Bestu deild kvenna næsta sumar. Vísir/Vilhelm

Ian Jeffs er tekinn við Íslandsmeistaraliði Breiðabliks í kvennafótbolta og hann er nú búinn að setja saman þjálfarateymi sitt fyrir komandi átök í Bestu deild kvenna.

Blikar hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn tvö síðustu ár og unnu þrefalt síðasta sumar, urðu Íslandsmeistarar í október, bikarmeistarar í ágúst og deildbikarmeistarar í mars auk þess að komast áfram í Evrópubikarnum í nóvember.

Nik Chamberlain hætti með Breiðablik eftir tímabilið og tók við Kristianstad í Svíþjóð. Blikar voru búnir að segja frá ráðningu Ian Jeffs en þeir byrjuðu nýtt ár með að tilkynna hvernig þjálfarateymi hans lítur út.

Honum til halds og trausts verða aðstoðarþjálfararnir Ásgerður Stefanía Baldursdóttir og Stefán Logi Magnússon en Stefán mun jafnframt sinna markmannsþjálfun liðsins. Þá verður Hjörtur Fjeldsted styrktarþjálfari liðsins.

Ásgerður Stefanía, eða Adda eins og flestir þekkja hana, gerði flotta hluti sem aðstoðarþjálfari Péturs Péturssonar hjá Val. Undir þeirra stjórn unnu Valskonur bæði Íslands- og bikarmeistaratitil en Ásgerður Stefanía lék áður með liðinu og vann titla með bæði Val og Stjörnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×