Sport

Van Veen síðastur inn í undan­úr­slit: „Hætti ekki að brosa næstu 24 tímana“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gian van Veen gat verið sáttur með spilamennsku sína í kvöld.
Gian van Veen gat verið sáttur með spilamennsku sína í kvöld. Getty/ Andrew Redington

Hinn 23 ára gamli Gian van Veen tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitunum í fyrsta sinn á heimsmeistaramótinu í pílukasti.

Van Veen gerði það með stæl þegar hann vann 5-1 sigur á fyrrverandi heimsmeistaranum Luke Humphries.

Spilamennska þessara fyrrum heimsmeistaraunglinga var mögnuð en heimsmeistarinn frá 2024 átti fá svör við góðum leik Hollendingsins.

Van Veen mætir Gary Anderson í undanúrslitunum á morgun en í hinum leiknum mætast síðan Luke Littler og Ryan Searle.

Van Veen var með 105,41 í meðaltali og það dugði ekki Humphries að vera með 101,12 í meðaltali í þessum leik. Hann fékk samt skell á móti flugbeittum Hollendingi.

Með þessum árangri kemst Van Veen upp í þriðja sæti heimslistans og þar með upp fyrir landa sinn Michael van Gerwen.

„Sérðu þetta bros? Ég hætti ekki að brosa næstu 24 tímana,“ sagði Gian van Veen í viðtali eftir leikinn.

Leið virkilega vel í dag

„Mér leið virkilega, virkilega vel í dag. Ég sá á skjánum að ég var með 105 í meðaltali og það lýsir því hvernig mér leið. Ólýsanlegt,“ sagði Van Veen en hvernig var að spila á móti Luke Humphries?

„Hann er frábær spilari og þegar þú spilar á móti Luke veistu að þú þarft að spila þinn besta leik til að eiga möguleika á að sigra hann og það er það sem ég vissi í dag og það sem ég bjó mig undir,“ sagði Van Veen.

Hann var svo spurður út í það að vera í þriðja sæti heimslistans og efstur Hollendinga, á undan Michael van Gerwen.

„Ég er svo stoltur“

„Ég er svo stoltur. Sem Hollendingur, þegar ég byrjaði að spila pílukast, var Michael van Gerwen efstur Hollendinga og maður vissi alltaf að hann yrði númer eitt, maður vonaðist bara til að verða númer tvö, þannig að það er ótrúlegt að vera númer eitt,“ sagði Van Veen.

„Kannski er ég núna efstur Hollendinga á styrkleikalistanum, en ég held að allir Hollendingar séu sammála um það – Michael van Gerwen verður alltaf okkar númer eitt, en já, í bili er ég það á listanum,“ sagði Van Veen.

„Ég hlakka mikið til, en ég hlakka mest til morgunkvöldsins, að fá spila á móti átrúnaðargoðinu mínu, Gary Anderson,“ sagði Van Veen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×