Sport

Mest lesið í inn­lenda sportinu: Danskar bullur, oddaleikur á Króknum og miskátir hlauparar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjarnan, Arnar Pétursson, Davíð Tómas Tómasson, Kristinn Gunnar Kristinsson og danskar fótboltabullur komu við sögu í mest lesnu innlendu íþróttafréttum ársins 2025 á Vísi.
Stjarnan, Arnar Pétursson, Davíð Tómas Tómasson, Kristinn Gunnar Kristinsson og danskar fótboltabullur komu við sögu í mest lesnu innlendu íþróttafréttum ársins 2025 á Vísi. vísir/samsett

Lesendur innlendra íþróttafrétta á Vísi höfðu að venju mikinn áhuga á Bakgarðshlaupinu á árinu sem senn er á enda undir lok. Þá voru margra augu á oddaleik Tindastóls og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta og ólæti stuðningsmanna Bröndby vöktu athygli.

Tvær mest lesnu íþróttafréttirnar á Vísi á árinu 2025 voru beinar útsendingar frá Bakgarðshlaupinu, annars vegar í maí og hins vegar í september.

Úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta karla réðust í oddaleik á Sauðárkróki í vor. Þar hafði Stjarnan betur gegn Tindastóli, 77-82, og fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli.

Stuðningsmenn Bröndby létu ófriðlega í tengslum við leikinn gegn Víkingi. Danska liðið tapaði leiknum í Víkinni, 3-0, og stuðningsmenn þess réðust á stuðningsmenn Víkings á Ölveri eftir leikinn.

Mikil athygli var á leikjum Íslands og Frakklands í undankeppni HM 2026. Frakkar unnu leik liðanna í París, 2-1, en jafntefli varð í leiknum á Laugardalsvelli, 2-2. Íslenska liðið endaði í 3. sæti síns riðils í undankeppninni og komst þar af leiðandi ekki í umspil um sæti á HM.

Lesendur Vísis höfðu einnig mikinn áhuga á ummælum Brynjars Karls Sigurðssonar, þjálfara körfuboltaliðs Aþenu, og ekki síst viðbrögðunum við þeim.

José Sousa hrósaði sigri í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka en Íslandsmeistarinn Hlynur Andrésson var ekki sáttur við herbragð hans. 

„Hlaupið endaði sem einvígi á milli míns og Portúgala sem vann hlaupið í fyrra, en hann hljóp meter fyrir aftan mig alla okkar samleið og fékk þar gott skjól gegn vindinum. Það hefur aldrei verið minn stíll að gera slíkt enda er horft illum augum á þannig taktík í hlaupaheiminum, í staðinn fyrir að vinna saman og deila álaginu,“ skrifaði Hlynur á Instagram.

Arnar Pétursson var dæmdur úr leik á Íslandsmótinu í tíu kílómetra hlaupi í sumar og gagnrýndi þá ákvörðun og framkvæmd hlaupsins harðlega.

Lesendur Vísis fylgdust einnig spenntir með beinum lýsingum frá leik Íslands og Króatíu á HM í handbolta karla og bardaga Gunnars Nelson og Kevins Holland. Því miður fóru báðar viðureignirnar illa fyrir Íslendinga.

Deila Davíðs Tómasar Tómassonar við dómaranefnd KKÍ var mikið milli tannanna á fólki. Davíð lýsti upplifun sinni af samskiptunum við dómaranefnd og þeirri ákvörðun sinni að hætta að dæma í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×