Skoðun

Nýtt ár, nýr veru­leiki, nýtt sam­tal

Kristinn Árni Hróbjartsson skrifar

Á árinu sem er að líða breyttist öryggisumhverfi Evrópu til hins verra svo miklu munar. Viðbrögð nágranna okkar og frændþjóða á norðurlöndunum létu ekki á sér standa.

Danmörk breytti reglum um herskyldu svo nú geta konur verið kvaddar til herskyldu til jafns við karla, og stefna á að lengja herskylduna úr 4 mánuðum í 11 á næsta ári. Í Svíþjóð var heilbrigðisyfirvöldum gert að undirbúa samfélagsskyldu í heilbrigðisstéttum og dreifiveitu rafmagns var gert að þjálfa þúsund viðbragðsaðila til að sinna nauðsynlegu viðhaldi á rafmagnskerfum í neyð. Í Noregi á að æfa viðbrögð við stríði á öllum stigum samfélagsins allt næsta ár.

Við erum herlaus þjóð á eyju sem, sökum staðsetningar, yrði alltaf álitin mikilvæg í átökum í okkar heimshluta. Það er ágæt staða að vera í þegar við erum umkringd vinum en öllu flóknari þegar staðan er önnur. Við eigum allt okkar undir greiðum alþjóðaviðskiptum og aðgengi að lykilvörum til að tryggja matvæli, samgöngur og heilbrigði. Við búum að skynsamlegri uppbyggingu fyrri kynslóða á hitaveitu- og raforkukerfum en megum auðvitað ekki við neins konar rofi á starfsemi þeirra. Þegar kemur að varnarmálum má segja að við höfum komist upp með að „útvista“ þeim til bandamanna okkar og vinaþjóða sem hafa einnig talið samstarfið þjóna eigin hagsmunum.

Það er auðvelt að hneykslast á því hversu værukær við höfum verið varðandi öryggis- og varnarmál og hversu erfiðlega okkur gengur að hefja alvarlegt samtal um þau. Fyrir þessu eru eðlilegar skýringar.

Ísland hefur sloppið ódýrt frá þessum mikilvægasta málaflokki stjórnvalda flestra ríkja. Við eyðum sáralitlum fjármunum í öryggis- og varnarmál og bæði almenningur og flestir ráðamenn hafa komist hjá því að ræða þau. En hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er sá tími liðinn. Við þurfum að opna augun fyrir gjörbreyttri stöðu.

Allir þeir sem bera ábyrgð í okkar samfélagi þurfa að rækta skilning á þeim hættum sem hugsanlega steðja að velferð okkar og öryggi. Þetta gildir um stjórnmálafólk, stjórnkerfið, fyrirtæki, fjölmiðla, háskólasamfélagið og fjölmarga aðra. Ef þær þungu áhyggjur sem vina- og bandalagsþjóðir hafa verða að veruleika, þá mun reyna á okkur öll. Þjóðaröryggismál mega því aldrei vera álitin flokkspólitísk eða sérhagsmunir.

Nú liggur boltinn hjá okkur, borgurunum, að taka við þessum skilaboðum, skilja hvað þau þýða og taka þátt í að gera öryggi að grundvallarmáli í okkar opinbera samtali um stjórnmál. Við þurfum að eiga yfirvegað samtal um hvernig við hugsum um mikilvæga innviði, hvernig við tryggjum þá og hver ber ábyrgðina, um hlutverk borgara og fyrirtækja í viðnámsþrótti og viðbúnaði. Og um hvernig við forgangsröðum þeirri fjárfestingu sem þarf að eiga sér stað.

Gerum árið 2026 að árinu sem við tökum samtal sem skiptir máli. Við eigum langt í land og megum engan tíma missa.

Höfundu er meðstofnandi Vörðu - vettvangs um viðnámsþrótt.




Skoðun

Sjá meira


×