Strasbourg - Breiða­blik 3-1 | Hetjuleg bar­átta dugði skammt

Kolbeinn Kristinsson skrifar
Blikar hafa lokið keppni í Evrópu þetta árið.
Blikar hafa lokið keppni í Evrópu þetta árið. vísir/Diego

Breiðablik mætti franska liðinu Strasbourg í 6. umferð Sambandsdeildar Evrópu en leikið var ytra á flottum leikvangi þeirra frönsku.

Strasbourg vann leikinn 3-1 og þrátt fyrir virkilega fína frammistöðu Blika, ekki síst í fyrri hálfleik, þá verður sigurinn að teljast sanngjarn eftir öflugan seinni hálfleik heimamanna en um virkilega öflugan andstæðing að ræða.

Úrslitin þýða að Breiðablik lýkur keppni með fimm stig í 30. sæti en Strasbourg er með 16 stig í efsta sæti og var fyrir leikinn í kvöld búið að tryggja sig áfram á næsta stig.

Flottur fyrri hálfleikur

Heimamenn byrjuðu mun betur en eins og gera mátti ráð fyrir þá var lið Strasbourg meira með boltann fyrst um sinn en þó án þess að skapa sér einhver dauðafæri. Lið Breiðabliks var skipulagt, pressaði jafnvel aðeins í byrjun og hélt ágætlega í boltann þegar tækifæri gafst en lá þess á milli aftarlega á vellinum og varðist á mörgum mönnum.

Strasbourg braut ísinn á 11. mínútu þegar þeir komust fyrir aftan vörn Blika og upp að endamörkum hvar Sebastian Nanasi fékk sendingu í teignum, tók eina snertingu og afgreiddi færið glæsilega upp í markhornið.

Blikar lögðust hins vegar ekkert kylliflatir, voru vissulega smá tíma að ná aftur áttum og skipulagi og voru kannski eilítið heppnir að fá ekki annað mark á sig í kjölfarið en unnu sig vel inn í leikinn aftur og Arnór Gauti átti m.a. flott skot sem markvörður heimamanna varði með herkjum í horn.

Á 36. mínútu jafnaði fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson leikinn með góðu skoti með vinstri fæti úr vítateignum eftir að boltinn barst til hans eftir góðan undirbúning Kristins Jónssonar í aðdragandanum.

Allt jafnt á Stade de La Meinau þegar gengið var til búningsherbergja.

Gáfu allt í leikinn en andstæðingurinn einfaldlega öflugur

Aftur byrjuðu heimamenn betur en Strasbourg skoraði eftir um einnar mínútna leik en markið var dæmt af sökum rangstöðu og Breiðablik slapp með skrekkinn.

Það var í raun ótrúlegt að staðan hafi haldist jöfn svona langt inn í seinni hálfleikinn en heimamenn fengu urmul af dauðafærum sem voru ýmist varin af Antoni Ara, varnarmönnum Blika eða þá að sóknarmenn Strasbourg klúðruðu hreinlega.

Á 80. mínútu brast hins vegar stíflan loksins þegar Martial Godo skoraði með föstu skoti hægra megin í vítateignum af stuttu færi, stöngin inn og ekkert sem Anton Ari í markinu gat gert.

Blikar höfðu ekki sagt sitt síðasta og voru orkumiklir síðustu mínúturnar en Aron Bjarnason átti hörkuskot rétt fyrir utan teig sem fór í þverslána og yfir á síðustu mínútu venjulegs leiktíma.

Stuttu síðar, langt inn í uppbótartíma, geysust heimamenn fram í skyndisókn hvar varamaðurinn Julio Enciso skoraði af stuttu færi og þar við sat.

Niðurstaðan er sú að Strasbourg vann leikinn en þrátt fyrir það getur Breiðablik borið höfuðið hátt, þ.e. liðið kveður Evrópu í bili með flottri frammistöðu gegn sterkum andstæðingi. Leikmenn gáfust aldrei upp en á endanum voru það gæði og hraði sóknarmanna Strasbourg sem kláruðu leikinn.

Atvik leiksins

Jöfnunarmarkið hjá Breiðablik í fyrri hálfleik var bæði vel afgreitt og verðskuldað á þeim tímapunkti. Kristinn Jónsson gerði vel í aðdragandanum og Höskuldur var snöggur að átta sig á hlutunum og kláraði vel með skoti með vinstri fæti úr vítateignum. Einnig var skot Arons Bjarnasonar í þverslá í lok leiks, það hefði jafnað metin á þeim tímapunkti.

Stjörnur og skúrkar

Margir hjá Breiðablik sem lögðu mikla vinnu og fórnfýsi í leikinn. Fyrirliðinn Höskuldur skorar gott mark, Kristinn Jónsson var góður í bakverðinum og Anton Ari var sömuleiðis virkilega flottur í markinu. Þá mæddi vitanlega mikið á varnarlínu Blika í kvöld og þar var Damir öflugur. Í liði Strasbourg voru ekki síst Sebastian Nanasi og Martial Odo beinskeyttir í sókninni.

Dómarinn

Dómarateymi leiksins kom frá Tékklandi. Ondřej Berka var á flautunni og aðstoðardómarar Ivo Nadvornik (AD1) og Matěj Vlček (AD2). Fjórði dómari var Ondrej Pechanec og Tomas Kocourek og Jana Adámková voru á tökkunum (VAR).

Ágæt frammistaða dómarateymisins. Leikurinn fékk að flæða þokkalega og stóru ákvarðanir virtust vera réttar. Einkunn 7,5.

Stemning og umgjörð

Alvöru Evrópuumgjörð og flott stemmning var á Stade de La Meinau-vellinum í Frakklandi og þrátt fyrir smá kulda var töluvert sungið og trallað í Strasbourg í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira