Innlent

Sundmenning Ís­lands á lista UNESCO

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Drangsnes er stærsti þéttbýlisstaðurinn í Kaldrananeshreppi. Þar leika pottarnir við sjóinn lykilatriði en þar er líka að finna flotta sundlaug.
Drangsnes er stærsti þéttbýlisstaðurinn í Kaldrananeshreppi. Þar leika pottarnir við sjóinn lykilatriði en þar er líka að finna flotta sundlaug. Vísir/Vilhelm

Að stinga sér til sunds í íslenskri sundlaug er ekki lengur bara hversdagsleg athöfn. Ekki frekar en að setjast niður og borða heimatilbúna máltíð á Ítalíu. Hvoru tveggja bætist á lista UNESCO yfir óáþreifilegan menningararf í vikunni.

Ísland var á meðal 77 þjóða sem sóttu um viðurkenningu frá UNESCO í ár. Fram kemur í umfjöllun New York Times að UNESCO-stimpill hjálpi þjóðum að laða til sín ferðamenn.

Frá árinu 2003 hefur menningar- og menntamálastofnun Sameinuðu þjóðanna statt og stöðugt fjölgað þeim hefðum sem ástæða þykir til að varðveita. Á listanum má finna mat, dans og brúðkaupshefðir svo fátt eitt sé nefnt. Alls hafa 185 þjóðir fengið hefð sína metna á listann.

Árlega kemur það í hlut nefndar með 24 fulltrúum að fara yfir umsóknir. Meðal annars er horft til jafnréttis og sannleiksgildi fullyrðinga um að hefðirnar eigi ríkan stuðning í samfélaginu. Þá er litið til umhverfismála og sjálfbærni.

Fjallað er um sundlaugarhefð Íslendinga á vef UNESCO er varðar útbreiddrar notkunar upphitaðra útilauga.

„Þrátt fyrir kalt loftslag eru þessar sundlaugar afar vinsælar og standa öllum opin, óháð aldri, bakgrunni eða getu. Fólk sækir laugarnar af ýmsum ástæðum — til að hreyfa sig, slaka á eða hitta aðra. Sundlaugar í almennri eigu eru reknar af samfélaginu fyrir samfélagið, og það fyrirkomulag hefur skapað sérstaka félagslega vettvanga. Heitir pottar hafa til dæmis þróast í óformlega umræðustaði þar sem fólk spjallar um málefni líðandi stundar. Sundlaugarhefðin hefur borist milli kynslóða: foreldrar fara með ungbörn sín í laugina og börnin halda áfram að sækja laugarnar þegar þau eldast — í sundkennslu, skólastarfi eða í frístundum með vinum og fjölskyldu.“

Sundlaugarhefðin á Íslandi taki á móti öllum kynjum, þjóðernum og getu. 

„Börn læra reglur og siði laugarinnar bæði í formlegri kennslu og í samskiptum við jafningja, fjölskyldu og starfsfólk. Ungmennafélög, íþróttafélög og eldri gestir lauganna gegna líka mikilvægu hlutverki í að miðla hefðinni til næstu kynslóða. Sundlaugar eru órjúfanlegur hluti af daglegu lífi þeirra sem iðka þessa hefð. Þær styðja við líkamlega, andlega og félagslega heilsu og veita jafnframt rými til tengsla. Þar skapast einnig umburðarlyndi, gagnkvæm virðing og samheldni meðal fólks úr öllum áttum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×