Enski boltinn

Þrír sem Jökull þolir ekki: „Hann er al­gjört gerpi“

Sindri Sverrisson skrifar
Þessir þrír fara verulega í taugarnar á Jökli Andréssyni.
Þessir þrír fara verulega í taugarnar á Jökli Andréssyni. Sýn Sport

Markvörðurinn Jökull Andrésson, sem spilaði á Englandi, valdi þrjá leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni í fótbolta sem hann gjörsamlega þolir ekki, í nýjasta þætti af VARsjánni á Sýn Sport.

Jökull er í dag orðinn markvörður FH en þessi 24 ára Mosfellingur fór ungur að árum til Reading og spilaði í enska boltanum þar til sumarið 2024 að hann sneri heim til Íslands.

Hann var gestur þeirra Stefáns Árna Pálssonar og Alberts Brynjars Ingasonar í VARsjánni í vikunni og lá mikið niðri fyrir þegar talið barst að því hvaða leikmenn í úrvalsdeildinni væru honum síst að skapi.

Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: VARsjáin - Þrír sem Jökull þolir ekki

Jökull er stuðningsmaður Manchester United en það breytir því ekki að fyrirliði liðsins, Bruno Fernandes, fer mikið í taugarnar á honum, sem og Alejandro Garnacho, fyrrverandi leikmaður United. Þriðji maður á listanum er svo Mohamed Salah sem vann sig inn á listann með viðbrögðum sínum við því að vera settur á varamannabekkinn þrjá leiki í röð hjá Liverpool.

„Bruno getur farið svo mikið í mig. Hann er fyrirliðinn okkar og hann vælir svo mikið. Ég elska hvað hann er góður í fótbolta en karakterinn hans er stundum óþolandi,“ sagði Jökull og benti sérstaklega á það hvernig Fernandes lætur í garð dómara.

Og hann er ekkert hrifnari af Garnacho:

„Hann er algjört gerpi. Ég veit ekki hver hann heldur að hann sé. Gerði eiginlega ekkert fyrir okkur hjá United og fór svo til Chelsea… Ég þoli ekki svona týpur,“ sagði Jökull.

Þáttinn má finna í heild sinni á Sýn+.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×