Fótbolti

Vatnspása í öllum hálfleikjum á HM í fót­bolta næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var mjög heitt á HM félagsliða síðasta sumar eins og Phil Foden hjá Manchester fékk að kynnast.
Það var mjög heitt á HM félagsliða síðasta sumar eins og Phil Foden hjá Manchester fékk að kynnast. Getty/Carl Recine

Leikirnir á HM í fótbolta í sumar munu vera lengri en áður eftir að Alþjóðaknattspyrnusambandið tilkynnti um að hver leikur muni fá vatnspásur í hvorum hálfleik.

Hver leikur á HM 2026 mun gera þriggja mínútna hlé í hvorum hálfleik samkvæmt tilkynningu FIFA.

Nýja ráðstöfunin hefur verið kynnt til að velferð leikmanna sé sett í forgang í ljósi væntinga um háan hita á þessu stærsta heimsmeistaramóti sögunnar sem fer fram næsta sumar í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.

Þetta mun leiða til þess að hver leikur, óháð veðurskilyrðum, verður stöðvaður á 22. mínútu, sem í raun breytir leiknum í fjögurra leikhluta viðureign. Bandaríkjamenn munu auðvitað nýta þetta hlé sem auglýsingahlé.

Ákvörðunin var tekin að höfðu samráði við þjálfara og útsendingaraðila.

FIFA segir að þetta sé „straumlínulöguð og einfölduð útgáfa af þeim hléum sem notuð hafa verið á sumum fyrri mótum, þar á meðal HM félagsliða 2025.“ Á HM félagsliða síðasta sumar voru vatnshlé notuð, en aðeins í leikjum í miklum hita.

Í sumum leikjum á því móti fór hitinn yfir 38 gráður á Celsíus.

„Ég held að ég hafi aldrei spilað í svona hita,“ sagði Andreas Schjelderup, framherji Benfica, eftir að hafa spilað gegn Bayern München. „Ég held að það sé ekki hollt, satt best að segja, en mér tókst að komast í gegnum það.“

Enzo Fernández hjá Chelsea bætti við síðar á mótinu: „Um daginn svimaði mig svolítið í miðjum leik. Ég þurfti að leggjast niður á völlinn því mig svimaði svo mikið.“

„Að spila í þessum hita er mjög hættulegt, það er mjög hættulegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×