Enski boltinn

Sér bara eina leið fyrir Salah: „Komi og biðjist inni­lega af­sökunar“

Sindri Sverrisson skrifar
Mohamed Salah ætti að fara beint til Arne Slot og biðjast afsökunar, vilji hann spila aftur fyrir Liverpool, að mati Arnars Gunnlaugssonar.
Mohamed Salah ætti að fara beint til Arne Slot og biðjast afsökunar, vilji hann spila aftur fyrir Liverpool, að mati Arnars Gunnlaugssonar. Getty/Molly Darlington

„Þetta var ótrúlegt viðtal,“ segir Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari í fótbolta, um risafréttir helgarinnar varðandi Mohamed Salah og stöðu hans hjá Liverpool.

Eftir þrjá leiki í röð á bekknum, og að hafa aðeins komið við sögu í einum þeirra, lét Salah allt gossa eftir 3-3 jafnteflið við Leeds í gær. Hann sagðist gerður að blóraböggli hjá Liverpool og að sambandið við stjórann Arne Slot væri brostið.

„Hann gat bara ekki hætt. Vanalega segirðu kannski 1-2 línur. Blaðamannafulltrúi Liverpool stendur þarna fyrir aftan hann og er bara: Geturðu hætt að tala? En hann lét bara móðan mása. Hann var ófaglegur í þessu viðtali. Fór um víðan völl. Var þetta útreiknað hjá honum? Ég held að eina leiðin fyrir hann til að komast út úr þessu og ná sáttum við Liverpool sé að biðjast afsökunar,“ segir Arnar en málið var rætt í Sunnudagsmessunni á Sýn Sport í kvöld.

Umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Messan - Salah ófaglegur og þarf að biðjast afsökunar

Ef Salah á að spila aftur fyrir Liverpool er bara eitt í boði að mati Arnars:

„Annars ertu eiginlega búinn að vera sem þjálfari og færð ekki viðurkenningu lengur, nema að leikmaðurinn komi og biðjist innilega afsökunar. Ég held að það sé eina leiðin til að taka á þessu máli, það er að segja ef hann hefur áhuga á að spila fyrir Liverpool.“

„Mér finnst þetta mjög lélegt,“ segir Albert Brynjar Ingason um ummæli Salah.

„Hann kemur inn á það sjálfur, sem er rétt, að hann er búinn að gera helling fyrir klúbbinn og búinn að vera einn besti sóknarmaður í heimi síðustu ár. En hann orðar það eins og að hann eigi ekki að þurfa að berjast fyrir sinni stöðu. Eins og hann eigi bara að eiga sæti í liðinu, sem er auðvitað bull. Þú þarft alltaf að hafa fyrir því að spila fyrir Liverpool og hlutirnir breytast hratt í fótbolta. Hann er eiginlega búinn að vera lélegur alveg frá því að Liverpool datt út gegn PSG [í mars],“ segir Albert en umræðuna má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×