Enski boltinn

Aftur af­lýst hjá Andra vegna bleytu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Andri Lucas gat ekki klárað leik dagsins, frekar en aðrir leikmenn.
Andri Lucas gat ekki klárað leik dagsins, frekar en aðrir leikmenn. Getty/Alex Dodd

Andri Lucas Guðjohnsen var að venju í byrjunarliði Blackburn Rovers þegar liðið mætti Sheffield Wednesday í ensku B-deildinni í dag. Ekki tókst að klára leik dagsins.

Andri Lucas byrjaði leikinn og Blackburn leiddi hann 1-0 þökk sé marki félaga hans í framlínunni, Japanans Yuki Ohashi, þegar dró til tíðinda.

Mikil rigning hefur verið í Blackburn og var Ewood Park hreinlega orðinn óleikhæfur eftir um 60 mínútna leik. Dómari leiksins stöðvaði hann í um korter til að meta ástand vallarins.

Gert var að grasinu en það dugði skammt. Dómari leiksins gerði tilraun til að láta bolta skoppa á grasinu en hann steindrapst á gegndrepa grasinu.

Flöturinn á Ewood Park virðist drena illa þar sem þetta er í annað skipti á leiktíðinni sem flauta þarf leik af vegna bleytu. Það gerðist einnig í leik við Ipswich í lok september.

Sá var flautaður af þegar 10 mínútur voru eftir en þurfti hins vegar að spila hann allan aftur. Óljóst er hvernig tekist verður á við leik dagsins - hvort spilaður verði síðasti hálftíminn þegar aðstæður leyfa eða hvort leika þurfi allan leikinn upp á nýtt.

Stefán Teitur Þórðarson spilaði fyrstu 60 mínúturnar fyrir Preston sem tók á móti Wrexham á Deepdale. Þeim leik lauk 1-1.

Willum Þór Willumsson er enn meiddur og spilaði ekki í 3-1 tapi Birmingham City fyrir Southampton á St. Mary's.

Jason Daði Svanþórsson var ekki í leikmannahópi Grimsby sem vann 4-0 á utandeildarliði Wealdstone í enska bikarnum og Benóný Breki Andrésson var sömuleiðis utan hóps Stockport County í leik við Cambridge United. Framlengja þarf þann leik þar sem staðan var markalaus eftir 90 mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×